Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Efnahagslíf Norðurlandanna

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 30. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Árin 2004-2007 var hagvöxtur á Norðurlöndununum umtalsvert meiri en á evrusvæðinu og í Bandaríkjunum, eða á bilinu 3,3 til 4,4% að meðaltali.

Hagvöxtur á Norðurlöndum var 3,6 % og 3,3% árin 2004 og 2005 og hvað mestur á Íslandi, eða 7,7% og 7,4%. Árið 2006 var hagvöxturinn á Norðurlöndum 4,4% að meðaltali og 3,5% árið 2007 en mestur í Noregi, 6,2% það ár. Áætlað er að hagvöxtur Norðurlandanna verði mun minni í ár, eða 2,0% og áfram mestur í Noregi, þótt hann dragist víða verulega saman á milli ára. Í flestum tilfellum má rekja minni hagvöxt til samdráttar í einkaneyslu og fjárfestingu. Árið 2009 er spáð að áfram hægi á hagvexti á svæðinu og að hann verði 1,3%.

Hagvöxtur á Norðurlöndunum

Hagvöxtur
2004
2005
2006
2007
Spá 2008
Spá 2009
Danmörk
2,3
2,5
3,9
1,7
1,1
0,5
Finnland
3,7
2,8
4,9
4,5
2,8
1,8
Ísland
7,7
7,4
4,4
4,9
1,7
-1,6
Noregur (fastland)
4,4
4,6
4,8
6,2
3,1
1,9
Svíþjóð
4,1
3,3
4,1
2,7
1,5
1,3
Norðurlönd
3,6
3,3
4,4
3,5
2,0
1,3

Hafa ber í huga að spár fjármálaráðuneyta Norðurlandanna voru allar gerðar í ágúst og september en aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum versnuðu mjög mikið eftir að fjórði stærsti fjárfestingarbanki Bandaríkjanna, Lehman Brothers, varð gjaldþrota þann 15. september sl. Ljóst er að allar þessar spár eru í endurskoðun og á það sérstaklega við um Ísland, en viðbúið er að hagvöxtur hér á landi verði mun minni á næsta ári en kemur fram í meðfylgjandi töflu.

Í ofangreindum spám er gert ráð fyrir að einkaneysla taki við sér í Svíþjóð og Noregi á næsta ári en að fjárfesting haldi áfram að dragast saman. Víða er búist við samdrætti í íbúðafjárfestingu en einnig í fjárfestingu atvinnuvega. Nafnverð íbúða er tekið að lækka í flestum landanna.

Verðbólga hefur verið lítil á Norðurlöndunum undanfarin ár og mældist 1,8% að meðaltali árið 2007. Áætlað er að hún aukist í ár og verði 3,8%, en spáð að hún minnki aftur á næsta ári.

Atvinnuleysi hefur minnkað ört á Norðurlöndunum á undanförnum árum og er áætlað að sú þróun haldi áfram í ár, sérstaklega í Danmörku, þar sem gert er ráð fyrir 1,7% atvinnuleysi í ár. Þarlend stjórnvöld töldu fyrir nokkrum árum að svo lágt atvinnuleysisstig væri óhugsandi. Á næsta ári er gert ráð fyrir því að atvinnuleysi á svæðinu aukist lítillega á ný.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum