Hoppa yfir valmynd
24. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Aðgerðir til að styðja við starfsemi á alþjóðlegum fjármálamörkuðum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 23. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í erindi í tengslum við nýafstaðinn ársfund Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lagði Dominique Strauss-Kahn, aðalframkvæmdastjóri, áherslu á að ríkisstjórnir bregðist við áhyggjum á fjármálamörkuðum með því að lýsa því yfir að skuldbindingar í fjármálakerfinu verði tryggðar og að slíkt verði gert á samræmdan hátt alþjóðlega.

Til að draga úr áhyggjum og byggja upp jákvæðar væntingar á mörkuðum kynnti hann drög að fjórþættri aðgerðaáætlun sem gerir ráð fyrir tímabundinni tryggingu skuldbindinga fjármálastofnana, aðgerðum til að fjarlægja töpuð útlán og færa þau til bókar, framlagningu á opinberu fé til fjármálakerfisins og aukinni samvinnu ríkisstjórna á þessu sviði. Hin fjórþætta áætlun myndi fela í sér eftirfarandi aðgerðir:

  • Tímabundin trygging á skuldbindingum. Fjármálaóróleikinn hefur aukið á svartsýni almennings sem krefst þess að stjórnvöld grípi til tímabundinna trygginga á skuldbindingum fjármálastofnana. Hjá þessu verður ekki komist. Til viðbótar við innistæðutryggingar, þarf líklega að tryggja millibankalán til að endurvekja viðskipti með þau. Slíkar tryggingar ættu að vera tímabundnar og þeim ætti að fylgja aukið eftirlit og takmörk á vaxtakjör innistæðureikninga.
  • Viðurkenning á töpuðum kröfum. Stjórnvöld þurfa að fjarlægja slæm lán og láta bókfæra útlánatöp. Yfirtaka eigna þarf að eiga sér stað á grundvelli sanngjarns verðmats. Til að geta laðað fjármagn til bankastofnana er betra að borga lægra verð núna, viðurkenna útlánatöp og leyfa bönkunum að njóta hagnaðarins ef tapið verður minna en ætlað er.
  • Stjórnvöld leggi fram nýtt fé til fjármálakerfisins. Af því að lausafjárskortur er viðvarandi á peningamörkuðum í því umhverfi sem ríkir í dag, þarf aðstoð frá stjórnvöldum. Ein leið sem hefur gefist vel í fyrri erfiðleikum er að tengja fjárframlög hins opinbera við fjárframlög frá einkaaðilum, en þannig staðfestir markaðurinn notkun almannafjár.
  • Hvetja til alþjóðlegrar samvinnu. Þörfin á alþjóðlegri samvinnu um lausn núverandi erfiðleika hefur aukist og er orðin aðkallandi. Dvínandi væntingar á mörkuðum hafa einnig birst í hegðun á milli landa sem hefur leitt til einhliða aðgerða með þjóðarhag einan að leiðarljósi.

Lögð var áhersla á mikilvægi þess að styrkja regluverkið og að auka eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja, einnig á alþjóðagrundvelli. Fjármálaerfiðleikarnir eru afleiðing af því að regluverkið og eftirlitið brást, mat og verðlagning á áhættu í lánaviðskiptum fjármálafyrirtækja var ekki raunhæft og aðhald á fjármálamarkaði var ekki nægilegt. Til að bregðast við þessari stöðu þarf að endurvekja trúverðugleika og skilvirkni alþjóðlega fjármálakerfisins. Alþjóðlegar stofnanir þurfa í auknum mæli að ná til allra þjóða heims, þannig að öll ríki sem vilja taka þátt geti gert það. Virknina má bæta með því að auka samstarf meðal alþjóðastofnana og fylgja betur eftir alþjóðlegum samningum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum