Hoppa yfir valmynd
21. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um auglýsingu embætta að liðnum tímabundnum skipunartíma

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 16. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Innan stjórnsýslunnar hefur því sjónarmiði verið hreyft að rétt væri að auglýsa ávallt embætti forstöðumanna laus til umsóknar að liðnum tímabundnum skipunartíma þeirra.

Þau rök eru einkum færð fyrir því sjónarmiði að við lok skipunartímans sé eðlilegt að endurmeta stjórnunarstörf viðkomandi forstöðumanns og árangur hans í starfi. Í því sambandi er jafnframt vísað til sjónarmiða um nýskipan í ríkisrekstri og árangursstjórnunarsamninga.

Með lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, (starfsmannalög) var horfið frá ótímabundnum skipunum í embætti á vegum ríkisins og sú meginregla sett að embættismenn, þar á meðal forstöðumenn, skuli skipaðir tímabundið, til fimm ára í senn, sbr. 1. mgr. 23. starfsmannalaga.

Samhliða þessum breytingum var sett nýmæli í 2. mgr. 23. gr. starfsmannalaga, þess efnis að tímabundin skipun embættismanns framlengist sjálfkrafa um fimm ár sé viðkomandi ekki tilkynnt, með a.m.k. sex mánaða fyrirvara áður en skipunartími hans rennur út, að embættið verði auglýst laust til umsóknar. Umrætt nýmæli hljóðar svo:

„Ef maður hefur verið skipaður í embætti skv. 1. mgr. skal honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar. Sé það ekki gert framlengist skipunartími hans í embætti sjálfkrafa um fimm ár, nema hann óski eftir að láta af störfum með hætti sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 37. gr.”

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að starfsmannalögum segir um þetta nýmæli, að því sé ætlað að stuðla að stöðugleika í röðum embættismanna sem hljóti að teljast æskilegur, að minnsta kosti að vissu marki.

Orðalagið gefur ekki til kynna að það hafi verið ætlun löggjafans að embætti yrðu sjálfkrafa auglýst laus til umsóknar á fimm ára fresti heldur þyrfti að taka sjálfstæða ákvörðun í hverju tilviki fyrir sig. Af orðalaginu verður heldur ekki dregin sú ályktun að ekki megi auglýsa nema að fyrir hendi séu sérstakar tilteknar forsendur.

En á hvaða forsendum á þá sá sem skipaði viðkomandi forstöðumann að byggja ákvörðun sína um að auglýsa embættið? Þar hefur ráðherra tiltölulega frjálst mat að því tilskyldu að matið byggi á málefnalegum forsendum eins og við alla aðra ákvarðanatöku hans. Þannig gæti það til dæmis verið forsenda auglýsingar að breytingar væru ákveðnar á verkefnaskipan með tilfærslu verkefna til eða frá viðkomandi stofnun. Önnur forsenda þess að hægt væri með markvissum hætti að meta hvort auglýsa skuli embættið við fimm ára markið er að fyrir hendi sé virkt mat á stjórnunarstörfum viðkomandi forstöðumanna og árangur þeirra í starfi sé metinn með reglubundnum hætti. Eitt af þeim átaksverkefnum sem hrint hefur verið úr vör í aðgerðaáætlun fjármálaráðuneytis sem kynnt var í vefritinu 24. janúar sl. er árangursstjórnun og árangursmælingar. Nauðsynlegur þáttur í viðhaldi árangursstjórnunar innan sérhverrar stofnunar er að stunda reglulegt endurmat á markmiðum og mælikvörðum viðkomandi stofnunar og þannig skýra og skerpa stöðu og ábyrgð stjórnenda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum