Hoppa yfir valmynd
10. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ákvarðanir útlendinga um þátttöku á innlendum vinnumarkaði

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 9. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Um síðastliðin áramót bjuggu hér rúmlega 21.000 manns með erlent ríkisfang, eða 6,8% af heildarfjölda landsmanna. Langflestir útlendingar koma frá Póllandi og næst flestir frá Litháen.

Ísland er ekki eina landið í Evrópu sem fólk frá þessum löndum hefur flutt til. Margir hafa flutt til Bretlands og Írlands en af Norðurlöndunum hefur aðflutningurinn verið mestur til Noregs, Íslands og Danmerkur.

Aðflutningur vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum ESB hefur skipt umtalsverðu máli fyrir þróun vinnumarkaðar á Norðurlöndunum. Þar hefur farið saman að eftirspurn hefur verið eftir vinnuafli og á vinnumarkaði upprunalandanna hefur verið misvægi og umframframboð af vinnuafli.

Mikill mismunur hefur verið á lífskjörum milli uppruna- og móttökulandanna. Eftir því sem flutningarnir hafa vaxið og staðið lengur hafa orðið til tengslanet og bættar upplýsingar sem auðvelda ákvarðanir um að flytja. Talið er að aðflutningur vinnuafls hafi leitt af sér meiri hagvöxt, minni verðhækkanir og lægri vexti en annars hefði orðið.

Fjölgun starfa hefur hins vegar aðallega orðið í láglaunastörfum. Á sama tíma hefur hagvöxtur aukist í upprunalöndum hinna aðfluttu og því er ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvort að því muni koma að áhuginn á því að flytja til annarra landa fari minnkandi.

Samanburður hagstærða fyrir Ísland, Pólland og Litháen

Hagstærð
Ísland
Pólland
Litháen
VLF/mann 2007 jafnvirðisgildi ESB27=100
128,9
53,8
60,3
Verðbólga, ágúst 2008 (HICP)
15,3
4,4
12,2
Árshækkun launakostnaðar 2008:2F
10,6*
10,0
18,2
Atvinnuleysi 2008:2F
3,1
6,8
4,6
Atvinnuþátttaka, 2007
85,1
57,0
64,9
*) Hækkun launavísitölu.
Heimild: Eurostat og Hagstofa Íslands.

Nánar er fjallað um þá þætti sem hafa áhrif á ákvarðanir útlendinga um þátttöku á innlendum vinnumarkaði í rammagrein 5 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - Haustskýrsla 2008.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum