Hoppa yfir valmynd
10. október 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Um þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 9. október 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Undanfarin ár hafa þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins, eins og spár annarra aðila, vanmetið kraft uppsveiflunnar.

Þar sem spár um tekjur ríkissjóðs eru byggðar á þjóðhagsspá ráðuneytisins hefur sama tilhneiging komið fram hvað þær varðar. Í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn – Haustskýrsla 2008 eru birtar niðurstöður rannsókna á orsökum spáfrávika í helstu þjóðhagsstærðum og samanburðar á ólíkum eiginleikum reiknilíkana við spágerð.

Í rannsókninni á frávikum í þjóðhagsspám fjármálaráðuneytisins eru vor- og haustspár ráðuneytisins á árunum 2002 til 2007 rannsakaðar með tölfræðimælingum. Helstu þjóðhagsstærðir eru skoðaðar, þ.e. verg landsframleiðsla og undirliðir hennar sem eru einkaneysla, samneysla, fjármunamyndun og inn- og útflutningur. Mælikvarðar sem lagðir eru til grundvallar mælingum á nákvæmni spánna eru meðalfrávik (e. average error, AE) og kvaðratfrávik (e. root mean square error, RMSE). Meðalfrávik nálægt núlli sýnir óbjagaða spá en neikvætt gildi merkir vanspá. Kvaðratfrávikið sem er kvaðratrót af meðaltali frávikanna í öðru veldi er betri mælikvarði á það hversu nálægt réttu gildi spágildin eru og þannig vega stór frávik þyngra en lítil. Mælingarnar sýna að frávik í spám um hagvöxt minnkuðu þegar komið var fram á spáárið sem sýnir að spáin er að batna eftir því sem tíminn líður og upplýsingar aukast. Þá sýnir rannsóknin að frávikin voru meira áberandi fyrir innlenda eftirspurnarliði en útflutning. Frávikin eru samt nokkuð mikil og má ýmist rekja þau til breytinga á sögulegum haggögnum, gefnum forsendum eða eiginleikum þeirra reiknilíkana sem stuðst er við. Gefnar forsendur um stýrivexti og gengi hafa stundum ekki þróast á þann veg sem vænst var með áhrifum á útkomuna. Annar stór áhrifavaldur er breyting á sögulegum haggögnum. Endanleg gildi á þjóðhagsstærðunum liggja jafnan ekki fyrir fyrr en nokkuð eftir að árið er liðið. Þannig hefur Hagstofan birt endurmat á tölum og hafa því stundum fylgt umtalsverðar breytingar, jafnvel nokkrum árum síðar. Sem dæmi má taka hagvöxt ársins 2004, sem í dag er áætlaður að hafa verið 7,7% en var í mars 2005 5,2%.

Í þriðja lagi hefur fjármálaráðuneytið stuðst við ICEMOD þjóðhagslíkanið frá árinu 2002 en Seðlabankinn hefur frá árinu 2006 stuðst við nýtt QMM þjóðhagslíkan. Samanburður á þessum líkönum varpar ljósi á þætti sem stýra ólíkum spániðurstöðum. Nákvæmur samanburður á spám ráðuneytisins og Seðlabankans er erfiður því viðmiðanirnar eru ólíkar. Þó eru meðalfrávikin í spám Seðlabankans í flestum tilfellum neikvæð sem bendir til sömu tilhneigingar til vanmats í spám bankans og hjá ráðuneytinu. Þegar kvaðratfrávikin eru skoðuð virðist sem frávik í spám fjármálaráðuneytisins séu í flestum tilfellum örlítið meiri en hjá Seðlabankanum. Að einhverju leyti getur það stafað af því að breytingar á birtum gögnum Hagstofunnar jukust á þeim tíma sem báðar spárnar ná yfir. Þá er líklegt að notkun Seðlabankans á nýju ársfjórðungslegu þjóðhagslíkani QMM frá árinu 2006 hafi dregið úr spáskekkjum en það virðist endurspegla þær breytingar sem orðið hafa á efnahagsumhverfinu undanfarin ár betur en ICEMOD líkanið.

Spár um sögulega þróun hagvaxtar

Með aukinni alþjóðavæðingu hagkerfisins og þróun innlends fjármálamarkaðar hafa áhrifaþættir helstu hagstærða breyst (eins og greint er frá í rammagrein 1 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - Haustskýrsla 2007). Reynsla undanfarinna ára sýnir að ráðstöfunartekjur heimila ráðast í síauknum mæli af þróun eignaverðs og fjármagnstekna. Um leið hafa einkaneysla og fjárfesting stýrst í meira mæli af hækkun eignaverðs, svokölluðum auðsáhrifum. Þessi kenning virðist eiga við nokkur rök að styðjast en mælingar á fylgni spár ICEMOD líkansins fyrir hagvöxt á tímabilinu 1997-2007 er nokkru minni en fyrir spár með QMM líkaninu. Myndin sýnir að QMM líkanið virðist spá betur fyrir um hagvöxt en ICEMOD líkanið, en munurinn á hagvaxtarspánum virðist sérstalega áberandi á síðasta hluta spátímans. Þannig virðist ICEMOD líkanið vanspá um hagvöxt þau ár sem innlend eftirspurn jókst hvað mest en ofspá um þau ár þar sem innlend eftirspurn jókst minna eða dróst saman. Sú niðurstaða er í samræmi við tölfræðilegar mælingar um einstaka eftirspurnarliði eins og að ofan er getið.

Þar sem ICEMOD líkanið var þróað fyrir all nokkrum árum má færa fyrir því rök að líkanið endurspegli ekki nægilega vel íslenskt efnahagsumhverfi eins og það hefur þróast á yfirstandandi áratug. Fjármálaráðuneytið hefur því hafið rannsóknir á því að laga QMM líkanið að sínum þörfum með sérstaka áherslu á frekari þróun á opinbera búskapnum í líkaninu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum