Hoppa yfir valmynd
29. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

50 ár frá fyrstu útgáfu tvísköttunarmódels OECD

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 25. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýlega var þess minnst að á þessu ári eru liðin 50 ár frá því að samningsfyrirmynd Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD í tvísköttunarmálum kom fyrst út en markmið með gerð tvísköttunarsamninga er að koma í veg fyrir tvísköttun og undanskot frá skattlagningu.

Reyndar var það forveri OECD sem stóð fyrir þessari fyrstu útgáfu eða OEEC. Ástæða þess að þörf var talin á að samræma efni tvísköttunarsamninga voru stóraukin efnahagsleg samskipti milli ríkjanna eftir síðari heimsstyrjöldina og þar með mikilvægi þess að koma í veg fyrir tvísköttun.

Árið 1963 kom fyrsta samningsfyrirmyndin út í núverandi mynd frá OECD og síðan þá hefur hún verið endurskoðuð nokkrum sinum og endurútgefin, nú síðast í júlí 2008. Með samningsfyrirmyndinni frá árinu 1977 voru gefnar út nákvæmar leiðbeiningar um hvernig túlka skyldi hverja grein fyrir sig. Það eru fyrst og fremst þessar leiðbeiningar sem taka breytingum eftir því hvernig alþjóðlegt skattalegt umhverfi breytist en ekki sjálf samningsfyrirmyndin.

Efni samningsfyrirmyndarinnar skiptist í nokkra kafla sem fjalla meðal annars um skilgreiningar á hugtökum, hvernig skipta skuli skattlagningarrétti milli ríkja vegna tekna hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum, fjallað er um aðferðir sem ríki geti samið um til að koma í veg fyrir tvísköttun og síðast en ekki síst hvernig skuli hátta upplýsingaskiptum og leysa úr deilumálum ef upp kemur ágreiningur um skattlagningarrétt milli samningsaðila.

Innan OECD er í dag starfandi vinnuhópur sem samanstendur af fulltrúum allra ríkjanna og vinnur hann að endurskoðun og túlkun á samningsfyrirmyndinni og athugasemdunum. Ísland hefur tekið fullan þátt í þessari vinnu og sent fulltrúa á árlega vinnufundi. Mikil vinna liggur að baki hverri breytingu sem gerð er á fyrirmyndinni og athugasemdunum og tekur iðulega mörg ár að komast að niðurstöðu sem leiðir til breytinga.

Samningsmódelið hefur verið haft til fyrirmyndar í öllum þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland er aðili að, hvort sem samið hefur verið við OECD-ríki eða ekki. Ekki er þó alltaf hægt að fylgja fyrirmyndinni í öllum atriðum, ýmist vegna séríslenskra skattareglna eða vegna sérreglna samningsríkisins en yfirleitt er komist að samkomulagi sem aðilar geta unað við. Athugasemdirnar við samningsfyrirmyndina eru afar mikilvægar við túlkun á ákvæðum hennar og hafa bæði skattyfirvöld og lögmenn nýtt sér þær við úrlausn ágreiningsefna og Hæstiréttur vísað til þeirra í rökstuðningi sínum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum