Hoppa yfir valmynd
19. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Hækkandi eldsneytisverð dregur úr akstri

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 18. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Undanfarna mánuði hefur Vegagerðin birt mánaðarlega upplýsingar um umferðarmagn á nokkrum mælingastöðvum.

Mælingar í safni Vegagerðarinnar eru flestar á hringveginum vítt og breitt um landið þar sem gætir mikils munar á umferð eftir árstíðum. Sú umferð kann að vera valkvæðari en almenn umferð innan þéttbýlisstaða. Frá byrjun árs 2007 hefur eldsneytisverð sýnt mikla leitni til hækkunar en þó með nokkrum undantekningum. Sú spurning vaknar því hvort hægt sé að meta skammtímaviðbrögð landsmanna við breytingum á eldsneytisverði. Því hefur löngum verið haldið fram að eftirspurn eftir eldsneyti sé mjög óteygin, þ.e. að fólk noti bíla sína jafn mikið óháð því hvort verð hækkar eða lækkar og jafnvel að Íslendingar séu öðru vísi en aðrar þjóðir í þessum efnum. Á því tímabili sem hinar birtu upplýsingar Vegagerðarinnar ná til hefur eldsneytisverð bæði lækkað en einnig hækkað, og það svo um munar. Því er fróðlegt að sjá hvort mæla megi með hvaða hætti landsmenn hafa brugðist við þessum breytingum.

Ársbreyting (%) á umferðarmagni og raunverði eldsneytis

Á myndinni hér fyrir ofan er sýnd þróun ársbreytingar á eldsneytisverði annars vegar og breyting á umferðarmagni hins vegar. Ekki er hægt að nota ársbreytingartölur um umferð fyrir nóvember 2007 og apríl 2008 vegna óreglu í talnaefni. Með því að skoða ársbreytingu mánaða hefur það ekki áhrif að umferð er meiri á sumrin en veturna á þeim mælingastöðum sem Vegagerðin notast við. Verð á eldsneyti er sett á fast verðlag með vísitölu neysluverðs. Á því er sá hængur að eldsneytisverðið hefur sjálft umtalsverð áhrif á vísitöluna, sérstaklega þegar breytingarnar eru miklar eins og í ár. Myndin sýnir að viðbrögð landsmanna við breytingum á eldsneytisverði, bæði til lækkunar og hækkunar, eru töluverð. Meðan eldsneytisverð lækkaði umfram almennt verðlag jókst umferð og í raun með ólíkindum. Um leið og eldsneytisverð hætti að lækka dró úr vexti umferðarinnar og þegar verðhækkunin á ári var komin í 7% var vöxtur umferðar orðinn enginn og eftir það fór að draga úr umferð frá árinu á undan. Sá samdráttur hélt áfram þótt sjá megi að þegar eldsneytisverð lækkaði nokkuð í ágúst varð samdrátturinn minni en hina sumarmánuðina.

Tölfræðilegt samband ársbreytingar á eldsneytisverði og umferðar

Sambandið á milli hlutfallslegra verðbreytinga og notkunar á eldsneyti, verðteygnin, er nokkuð sterkt tölfræðilega. Það segir að 1% hækkun (lækkun) eldsneytisverðs frá fyrra ári (miðað við annað verðlag) leiðir af sér 0,36% lækkun (hækkun) á umferðarmagni, og þar með notkun á eldsneyti. Útreikningarnir sýna jafnframt að miðað við óbreytt eldsneytisverð má gera ráð fyrir að umferð aukist í samræmi við fólksfjölgun, sem var 2,5% á ári á því tímabili sem athugunin nær til. Sambandið milli þessara breyta, sem sýnt er á neðri myndinni, er álíka sterkt og það sem mælt hefur verið í öðrum löndum. Til lengri tíma hefur verið sýnt fram á að teygnin er nálægt -1. Það stafar af því að við hækkun eldsneytisverðs til lengri tíma er brugðist með bættri nýtingu eldsneytis.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum