Hoppa yfir valmynd
17. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný lög um endurskoðendur

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í vor voru samþykkt ný lög um endurskoðendur sem taka gildi um næstu áramót.

Voru lögin sett til innleiðingar á 8. félagatilskipun ESB en hún kallaði á umfangsmiklar breytingar á eldri lögum um endurskoðendur.

Markmið tilskipunarinnar er að kröfur og gæði endurskoðunar verði sambærileg á EES-svæðinu og til þess fallin að auka tiltrú fjárfesta á endurskoðuðum ársreikningum. Með nýjum lögum eru gerðar meiri og skýrari kröfur til endurskoðenda en verið hefur til þessa. Þar má nefna auknar kröfur til endurmenntunar og gæðaeftirlits.

Einnig skal Félag löggiltra endurskoðenda setja siðareglur sem endurskoðendum ber að fara eftir. Þegar um er að ræða endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með höndum endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum eru gerðar ríkari kröfur um að endurskoðandinn sé óháður einingunni. Eining tengd almannahagsmunum er lögaðili sem hefur verðbréf sín skráð á markaði, lífeyrissjóðir, lánastofnanir og vátryggingafélög. Skulu endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtækin sem endurskoða slíkar einingar birta árlega á vefsetri sínu skýrslu um gagnsæi þar sem fram koma upplýsingar um endurskoðunarfyrirtækið.

Einnig skal endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að honum var falið verkið. Endurskoðanda slíkrar einingar er ekki heimilt að taka við stjórnunarstöðu hjá viðkomandi fyrirtæki fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því hann tók þátt í endurskoðuninni.

Er hinum nýju lögum ætlað að tryggja að almenningur og þeir sem þurfa á fjárhagsupplýsingum að halda geti treyst á gæði þeirra upplýsinga sem fram koma í endurskoðuðum ársreikningi og að hann sé unninn af óháðum endurskoðanda.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum