Hoppa yfir valmynd
16. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ágreiningur við ESA vegna ríkisábyrgðargjalds

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 11. september 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nýverið hóf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) formlega rannsókn á því hvort undanþága Íbúðalánasjóðs frá greiðslu sérstaks ríkisábyrgðargjalds, samkvæmt 7. gr. laga nr. 121/1997 um ríkisábyrgðir, hafi frá gildistöku laganna 1. janúar 1998 falið í sér ólögmæta nýja ríkisaðstoð.

Í ákvörðun ESA um að hefja rannsóknina kemur fram sú afstaða ESA að líkur séu á því að um ólögmæta nýja ríkisaðstoð sé að ræða þar sem frá og með árinu 1998 hafi ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum almennt borið að greiða sérstakt ríkisábyrgðargjald af innlendum sem erlendum skuldbindingum sínum sem ríkið ber ábyrgð á. Hins vegar hafi Íbúðalánasjóður verið sérstaklega undanþeginn þessari gjaldskyldu og þar með notið sérstakrar meðferðar. Þar sem um sé að ræða sk. nýja aðstoð („new aid”), þ.e. aðstoð sem veitt er eftir gildistöku EES-samningsins, gæti niðurstaða rannsóknarinnar, samkvæmt bráðabirgðamati ESA, orðið á þá leið að íslenska ríkinu beri að endurkrefja Íbúðalánasjóð um þá fjárhæð sem nemur ógreiddu ríkisábyrgðargjaldi sjóðsins aftur til ársins 1998, með vöxtum.

Íslensk stjórnvöld hafa komið á framfæri við ESA rökstuddum andmælum við þá bráðabirgðaniðurstöðu sem fram kemur í umræddri ákvörðun ESA. Þau benda á að Íbúðalánasjóður hefur frá upphafi verið undanþeginn greiðslu ríkisábyrgðargjalds vegna þeirrar ríkisábyrgðar sem er á skuldbindingum sjóðsins. Í því efni hafi engin breyting orðið með lögum nr. 121/1997 heldur hafi þau aðeins staðfest ríkjandi ástand hvað sjóðinn varðar. Eðli máls samkvæmt geti ákvörðun Alþingis um gjaldskyldu annarra ríkisstofnana og fyrirtækja ekki myndað nýtt sjálfstætt ríkisaðstoðarkerfi fyrir Íbúðalánasjóð. Eingöngu efnislegar breytingar á eldra ríkisaðstoðarkerfi, eða nýtt sjálfstætt kerfi, geta talist vera ný ríkisaðstoð. Því sé, að mati íslenskra stjórnvalda, í tilviki Íbúðalánasjóðs um að ræða ríkisaðstoðarkerfi (þ.e. undanþága sjóðsins frá ríkisábyrgðargjaldi) sem sé eldra en EES-samningurinn og í slíkum tilvikum („existing aid”) er samkvæmt málsmeðferðarreglum ekki um endurgreiðslukröfu að ræða verði niðurstaðan sú að ríkisaðstoðarkerfið sé andstætt ríkisstyrkjaákvæðum EES-samningsins. Í slíkum tilvikum ber stjórnvöldum einvörðungu að sjá til þess að til framtíðar sé viðkomandi ríkisaðstoðarkerfi aðlagað gildandi reglum um ríkisaðstoð.

Ætla má að niðurstaða hinnar formlegu rannsóknar liggi fyrir á síðari hluta næsta árs. Endanleg ákvörðun ESA er síðan kæranleg til EFTA dómstólsins. Samhliða þessari rannsókn hefur ESA til sjálfstæðrar skoðunar aðra þætti í starfsemi Íbúðalánasjóðs og hvernig þeir falla að reglum um ríkisaðstoð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum