Hoppa yfir valmynd
3. september 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp til breytinga á lífeyrissjóðalögum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. ágúst 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Meðal þeirra stjórnarfrumvarpa sem ekki fengu afgreiðslu fyrir þinghlé í vor var frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á hinum almennu lífeyrissjóðalögum.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar sem ætlað er að auka sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris. Þar má nefna ákvæði sem varða styttingu á uppsagnarfresti vegna samnings um viðbótartryggingarvernd eða séreignasparnað, rétt erlendra ríkisborgara til endurgreiðslu iðgjalda vegna öflunar lífeyrisréttinda í séreign, heimild lífeyrissjóða til auka svigrúm sjóðfélaga til að flýta eða fresta töku lífeyris og aukið svigrúm sjóðfélaga til ráðstöfunar áunninna ellilífeyrisréttinda til maka eða fyrrverandi maka.

Þá er lagt til í frumvarpinu að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka þátt í viðskiptum á skipulegum lánamarkaði með verðbréf. Lagt var til að lánveitingar af þessu tagi gætu ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur 25% af hreinni eign lífeyrissjóðs. Efnahags- og skattanefnd sem fékk frumvarpið til meðferðar lagði til að þetta hlutfall yrði lækkað í 12,5%. Einnig lagði nefndin til að heimild lífeyrissjóða til verðbréfalána tæki ekki gildi fyrr en um næstu áramót að því er hlutabréf varðar, þótt lögin tækju að öðru leyti gildi við staðfestingu.

Frumvarpið var komið til annarrar umræðu þegar hlé var gert á störfum þingsins í vor. Það á eftir að koma í ljós hvort frumvarpið hlýtur afgreiðslu þegar Alþingi kemur saman á ný nú í september.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum