Hoppa yfir valmynd
26. júní 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Viðskiptin við útlönd það sem af er ári

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 26. júní 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Það sem af er ári hefur virði innflutnings aukist um 10%. Um nokkra magnminnkun er að ræða, að teknu tilliti til gengislækkunar krónunnar og hækkunar verðlags. Ef innflutningur skipa og flugvéla er undanskilinn hefur verðmætið aukist um 24%.

Virði innfluttrar mat- og drykkjarvöru hefur aukist um 47% það sem af er ári sem skýrist af lægra gengi krónunnar og hærra verði í erlendri mynt, en ekki er samdráttur að magni til enda um nauðsynjavöru að ræða. Sömu sögu má segja af eldsneyti en innflutningsvirði eldsneytis og olía hefur aukist um 41% frá áramótum. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins jókst magninnflutningur á eldsneyti (án eldsneytis fyrir flugvélar) um rúm 9% þrátt fyrir gríðarlegar verðhækkanir sem staðfestir hversu óteygin eftirspurn eftir eldsneyti
er til skamms- og meðallangs tíma.

Verðmæti innfluttra hrá- og rekstrarvara hefur aukist um 30% á fyrstu fimm mánuðum ársins en innflutningurinn hefur aukist að magni til vegna aukins innflutnings á áloxíði. Í vorspá ráðuneytisins var spáð 2,3% samdrætti að magni til í vöruinnflutningi á þessu ári en á fyrstu fjórum mánuðum ársins var samdrátturinn 2,6%.

Útflutningur vöru hefur aukist um 2,5% að magni til á fyrstu fjórum mánuðum ársins, þar af hefur útflutningur áls aukist um rúm 30%. Alcoa á Reyðarfirði náði ekki fullri framleiðslugetu fyrr en í apríl. Spáð var um 70% magnaukningu í álútflutningi á árinu og er enn gert ráð fyrir að sú spá muni rætast og í heild um 6,5% aukningu útflutnings yfir árið. Á fyrstu fjórum mánuðum ársins dróst útflutningur sjávarafurða saman um tæp 5% en í vorspá var gert ráð fyrir 9% samdrætti í útflutningi sjávarafurða.

Halli á vöruskiptajöfnuði var 7,8% af landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi en spáð var 4,2% halla yfir árið. Halli á viðskiptajöfnuði var 17,8% í fjórðungnum en spáð var 13,2% halla yfir árið. Þessi halli mun sömuleiðis dragast saman þegar á líður.

Hallinn á jöfnuði þáttatekna var rúmlega 20 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi en í síðustu spá var spáð halla upp á 85,5 ma.kr. yfir árið og er enn gert ráð fyrir að sú spá geti staðist. Sem fyrr eru vaxtagjöld vegna skuldabréfaeignar erlendra aðila í innlendum bréfum stærsti gjaldaliðurinn en endurfjárfestur hagnaður er sá liður sem sveiflast mest á milli ársfjórðunga.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum