Hoppa yfir valmynd
16. júní 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þáttaskil í efnahagsmálum á Norðurlöndunum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 12. júní 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á fundi fjármálaráðherra Norðurlandanna sem haldinn var nýlega í Stokkhólmi var staða og horfur í efnahagsmálum til umræðu eins og venja er til.

Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu, eru jafnan efnahagslega vel í takt við hvert annað. Hagvöxtur hefur verið nokkuð jafn og stöðugur á undanförnum árum og hefur verið vaxandi ef eitthvað er. Nú er hins vegar komið að þáttaskilum. Reiknað er með því að hagvöxtur dragist saman á þessu ári. Er gert ráð fyrir áframhaldandi samdrætti á hagvexti á næsta ári á Norðurlöndunum öllum.

Verðbólga er að aukast á Norðurlöndunum líkt og annars staðar í heiminum meðal annars vegna hækkandi olíu- og hráefnaverðs. Í Danmörku var verðbólgan til að mynda ekki nema um 1% um mitt síðasta ár en mælist um 3% nú um stundir. Svipaða sögu má segja af Svíþjóð þar sem árshraði hennar er 4% í nýjustu mælingu. Í Noregi jókst verðbólgan umtalsvert á seinni hluta síðasta árs og mældist um 4% um sl. áramót eftir að hafa verið lítil sem engin um mitt ár.

Dregið hefur úr atvinnuleysi á Norðurlöndunum á undanförnum árum samfara auknum vexti á vinnuaflinu. Atvinnuleysi í Danmörku mælist nú minna en áður var talið mögulegt og er gert ráð fyrir að það fari niður fyrir 2% en taki síðan að aukast aftur á næsta ári. Sömu sögu má segja um Noreg þar sem verið hefur innflutningur vinnuafls líkt og í Danmörku. Í Svíþjóð hefur einnig dregið úr atvinnuleysi á undanförnum árum. Gert er ráð fyrir því að það haldist áfram í kringum 4%. Í Finnlandi er spáð 6% atvinnuleysi á árinu en dregið hefur jafnt og þétt úr því frá því er það var um 18% á fyrri hluta síðasta áratugar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum