Hoppa yfir valmynd
2. júní 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Spá um lýðfræðilega þróun á næstu árum

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 29. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hagstofa Íslands gaf út nýja mannfjöldaspá sem nær allt til ársins 2050 seint á árinu 2007.

Fjallað er um spána í rammagrein í Þjóðarbúskapnum, nýrri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem kom út í síðasta mánuði.

Í spánni er gert ráð fyrir að landsmenn verði orðnir tæplega 440.000 í lok spátímans sem er fjölgun um 0,8% að meðaltali yfir spátímabilið. Í spánni vex fjöldi landsmanna um 1% á ári í byrjun en smám saman dregur úr vextinum og undir lok tímans verður árlegur vöxtur orðinn 0,6%. Fjöldi fólks á starfsaldri (16-74 ára) vex hraðar en mannfjöldinn í upphafi tímabilsins en síðan fer vöxturinn minnkandi. Hlutfall fólks á starfsaldri af heildarmannfjöldanum helst hins vegar stöðugt næstu 10 árin, eða um 72%. en eftir það fer hlutfallið lækkandi og verður komið í 68% skömmu fyrir lok spátímans. Nú eru um 225.000 manns á starfsaldri en í lok spátímans verða 300.000 manns í þessum hópi. Á næstu 10 árum gerir spáin ráð fyrir að fjöldi ungra og eldri Íslendinga aukist hlutfallslega sem mun kalla á aukin útgjöld til mennta- og heilbrigðismála.

Samkvæmt spánni mun börnum að 5 ára aldri fjölga um 14% á næstu 10 árum og sambærileg fjölgun mun eiga sér stað á fjölda barna sem eru yngri en 7 ára og njóta barnabóta sem ekki eru tekjutengdar. Þó dregur úr fjölguninni ár frá ári. Aftur á móti snýst fækkun barna á grunnskólaaldri, sem reiknað er með næstu tvö ár, í vaxandi fjölgun sem nær hámarki eftir áratug. Þá verður fjöldi barna á grunnskólaaldri orðinn um 47.000, sem er 7% aukning frá því sem nú er.

Nokkru flóknara er að spá fyrir um fjölda framhaldsskólanema vegna óvissu um brottfall. Á undanförnum árum hefur þátttökuhlutfall í hverjum aldursflokki framhaldsskólanema hækkað. Ef miðað er við sama hlutfall árganga í framhaldsskóla og haustið 2006 verður ekki mikil fjölgun framhaldsskólanema í heild á komandi árum. Fjöldi nemenda á háskólastigi hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum. Einkum hefur þátttaka eldri nemenda aukist mikið. Ef áframhaldandi aukning verður á hlutfallinu verður fjölgun háskólanema enn meiri.

Um leið og yngri aldursflokkum Íslendinga fjölgar hlutfallslega er spáð að eldri aldursflokkar geri það einnig. Þeim sem eldri eru en sjötugir hefur á undanförnum árum fjölgað nokkuð meira en landsmönnum öllum þótt þrjú síðastliðin ár séu þar undantekning og svo mun enn verða um sinn en ekki lengi. Eftir 5 ár tekur að fjölga mjög í hópnum og gerir spáin ráð fyrir að á 16 ára tímabili frá 2016 fjölgi yfir 3% á ári í þessum hópi. Á næstu 10 árum stækkar hópur sjötugra og eldri um fjórðung. Aftur á móti mun áttræðum og eldri sem fjölgar um þessar mundir um yfir 3% á ári ekki fjölga svo ört á næstu árum þar á eftir þannig að eftir 10 ár verður þessi hópur einnig fjórðungi stærri en hann er nú. Hins vegar mun níræðum og eldri fjölga meira en þeim sem yngri eru og þeir verða orðnir 2.100 eftir 10 ár, 50% fleiri en þeir eru nú.

Mannfjöldaspá



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum