Hoppa yfir valmynd
27. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tvísköttunarsamningur við Suður-Kóreu

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 22. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Þann 15. maí sl. var undirritaður samningur milli Íslands og Suður-Kóreu til að komast hjá tvísköttun og nær samningurinn til tekju- og eignaskatta.

Helstu efnisatriði samningsins eru þau að afdráttarskattur af arði er 5% ef móttakandi á a.m.k. 25% í félaginu sem greiðir arðinn en afdráttarskattur er 15% í öllum öðrum tilvikum. Þá var samið um 10% afdráttarskatt af vöxtum. Þó eru vextir sem greiddir eru ákveðnum fjármálastofnunum í eigu ríkisins s.s., bönkum og lánasjóðum undanþegnir afdráttarskatti. Einnig var samið um 10% afdráttarskatt af þóknunum en skilgreiningin á þóknunum er frábrugðin þeirri hefðbundnu að því leyti að hún nær einnig til þóknana fyrir afnot af vísindabúnaði. Samkvæmt samningnum er frádráttaraðferð (credit method) beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun.

Nokkur önnur atriði í samningnum eru frábrugðin hinni íslensku samningsfyrirmynd og þau helstu eru þessi: Í 4. gr. þar sem fjallað er um heimilisfasta aðila er sett fram það viðbótarviðmið að ef fyrirtæki hefur aðalskrifstofur (head or main office) sínar í Suður-Kóreu þá telst það heimilisfast þar. Þetta ákvæði kemur úr innlendri kóreanskri löggjöf. Í 15. gr. er ákvæði um sjálfstæða persónulega þjónustu en Kórea lagði mikla áherslu á það þar sem samkvæmt innlendri löggjöf þarf að flokka á milli sjálfstæðrar starfsemi og hagnaðar af atvinnustarfsemi þar sem um það gilda mismunandi reglur.

Samningurinn inniheldur ákvæði um skattleysi kennara og rannsóknaraðila í hinu ríkinu í 2 ár frá komu til samningsríkis. Samkvæmt kóreanskri löggjöf eru kennarar taldir heimilisfastir í Suður-Kóreu og því skattlagðir þar þótt þeir fari og kenni erlendis í þann tíma sem fjallað er um í umræddum ákvæðum tvísköttunarsamninga.

Á næstu mánuðum munu stjórnvöld vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjum. Vonast er til að samningurinn geti komið til framkvæmda 1. janúar 2009.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum