Hoppa yfir valmynd
13. maí 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruviðskiptin í apríl 2008

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 8. maí 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Innflutningur vöru, fob, var 40,8 ma.kr. í apríl samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

Þetta er 12% meiri innflutningur en í mars. Útflutningur vöru nam 33,5 ma.kr. sem er eilítið minni útflutningur en í mars þegar útflutningur nam 34,3 ma.kr. Vöruskiptahallinn í apríl nam því 7,2 ma.kr sem er nokkur aukning frá því í mars þegar hallinn nam 2,8 ma.kr.

Innflutningur hrá- og rekstrarvara eykst nokkuð á milli mánaða sem skýrist af auknum innflutningi á áloxíð til álframleiðslu. Einnig er nokkur aukning í innflutningi á eldsneyti frá því í mars en innflutningur á eldsneyti er jafnan mjög óreglulegur á milli mánaða. Að öðru leyti er lítið um breytingar frá sl. mánuði en helst má nefna að lítillega dregur úr innflutningi fólksbifreiða á milli mánaða. Innflutningur fjárfestingarvara er enn mikill en töluverð umsvif eru enn í hagkerfinu þótt hægt hafi á útlánum bankanna.

Útflutningur vöru dregst lítillega saman eins og áður sagði og munar þar helst um að útflutningur áls dregst saman en hann var mjög mikill í sl. mánuði. Útflutningur sjávarafurða er mikill líkt og í fyrri mánuði þar sem veiking krónunnar er mikil búbót fyrir sjávarútveginn auk þess sem erlent verð sjávarafurða er gott um þessar mundir.

Gera má ráð fyrir að hallinn dragist saman á næstu mánuðum þegar innflutningur varanlegra og hálf-varanlegra vara dregst saman að magni til samfara hækkandi verði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum