Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Húsnæðisverð

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 17. apríl 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Eftir að óróleiki magnaðist á alþjóðlegum fjármálamörkuðum árið 2007 hefur aðgengi að lánsfjármagni dregist saman víða um heim.

Rót óróleikans á fjármálamarkaði má rekja til umfangs undirmálslána í Bandaríkjunum en mikil aukning varð í útlánum til margra einstaklinga án þess að greiðslumat færi fram þar sem flestir reiddu sig á að fasteignaverð héldi áfram að hækka. Þegar stýrivextir tóku að hækka í Bandaríkjunum fór að hægja hratt á veltu á fasteignamarkaði og vanskil íbúðalána jukust verulega.

Í framhaldinu tók verð á bandarískum fasteignamarkaði að lækka og hefur sú þróun ágerst að undanförnu víða um Bandaríkin. Flest bendir til að tímabil hækkandi fjármagnskostnaðar sé gengið í garð og að það leiði til þess að fasteignamarkaðir kólni á næstu misserum og er fasteignaverð farið að lækka víðar en í Bandaríkjunum.

Ef svo fer sem horfir, verður Ísland þar engin undantekning, en velta á fasteignamarkaði hefur haldist um 40% minni en á sama tíma í fyrra það sem af er ári.

Í þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að raunlækkun á fasteignaverði verði um það bil 15% árin 2008-2010. Raunlækkun í spám annarra greiningaraðila hefur verið á bilinu 10-14% en Seðlabankinn spáir 30% raunlækkun. Undanfarin ár hefur fasteignverð hækkað víða um heim vegna mikils hagvaxtar og vaxandi framboðs af sífellt ódýrara fjármagni.

Fasteignaverð á Íslandi hefur einnig hækkað en þó nokkru meira en í mörgum öðrum löndum. Eftir einkavæðingu bankanna var lokið hafa umsvif og fjárhagslegur styrkur þeirra aukist hröðum skrefum. Í lok ágúst 2004 hófu þeir óvænt harða samkeppni við Íbúðalánasjóð með lækkun íbúðavaxta og hærri lánsupphæðum. Fram að því hafði aðgengi að lánsfjármagni á innlendum fasteignamarkaði verið takmarkað og þá átt sinn þátt í að halda fasteignaverði lægra en ella. Jafnframt var fasteignaverð hér á landi lengi mun lægra en í nágrannaríkjunum. Aðkoma bankanna breytti því og fyrir vikið varð umtalsverð hækkun á mörkuðum milli 2004-2006 meðan fasteignamarkaðurinn aðlagaðist nýjum aðstæðum við fjármögnun fasteignakaupa.

Einnig átti ört hækkandi lóðaverð vegna skipulagsbreytinga á höfuðborgarsvæðinu þátt í að verð hækkaði meira í Reykjavík en í öðrum borgum á þessu tímabili. Undanfarin fjögur ár hefur fasteignaverð hækkað um tæp 56% að raunvirði. Raunlækkun á fasteignaverði á næstu árum þarf að skoða í því samhengi.

Fasteignaverð í nokkrum borgum 2002-2007



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum