Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Niðurfelling stimpilgjalda vegna lána til fyrstu fasteignakaupa

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 10. apríl 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðherra hefur á Alþingi mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald.

Núgildandi lög um stimpilgjald eru frá 1978 og kveða á um að greiða skuli stimpilgjald af þeim skjölum sem tilgreind eru í lögunum en þar er fyrst og fremst um að ræða afsöl og kaupsamninga, skuldabréf og tryggingarbréf, hlutabréf, víxla, vátryggingasamninga og kaupmála. Stimplun skjala er í höndum sýslumanna, banka og sparisjóða.

Með frumvarpi fjármálaráðherra er lagt til að skuldabréf og tryggingarbréf sem tryggð eru með veði í fasteign og gefin eru út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði, skulu vera undanþegin stimpilgjaldi að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Er frumvarpið lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, frá 17. febrúar 2008, í tengslum við gerð kjarasamninga.

Í frumvarpinu er nánar afmarkað hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að unnt sé að líta svo á að um fyrstu kaup á íbúðarhúsnæði sé að ræða. Skilyrðin eru nánar tiltekið eftirfarandi:

a. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, hafi ekki áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði.

b. Kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, skal vera þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í viðkomandi fasteign.

c. Sú lánsfjárhæð sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skal einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupum á viðkomandi fasteign.

Hafi maki kaupanda og skuldara, eða sambúðaraðili, áður verið skráður þinglýstur eigandi að íbúðarhúsnæði skal réttur þess sem uppfyllir skilyrði frumvarpsins, til niðurfellingar stimpilgjalds, aldrei vera meiri en sem nemur helmingi af annars ákvörðuðu stimpilgjaldi hins stimpilfrjálsa skjals. Með þessu er verið að horfa til þeirra tilvika þegar hjón eða sambúðarfólk búa saman í íbúðarhúsnæði sem aðeins annar aðilinn er skráður eigandi fyrir.

Í samræmi við lög um stimpilgjald gerir frumvarpið ráð fyrir að þeir aðilar sem hafa á hendi stimplun skjala (sýslumenn og bankar) skuli kanna, við ákvörðun um stimpilgjald skuldabréfs eða tryggingarbréfs sem tryggt er með veði og gefið út til fjármögnunar fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði, hvort skilyrði frumvarpsins um niðurfellingu stimpilgjalds séu uppfyllt. Er það fyrirkomulag í samræmi við önnur ákvæði laganna um stimpilgjald.

Áætlað er að tekjutap ríkissjóðs af stimpilfrelsi skuldabréfa og tryggingabréfa vegna fyrstu kaupa á fasteign geti numið allt að 500 m.kr. á ársgrundvelli. Lagt er til að gildistaka frumvarpsins verði 1. júlí 2008 þar sem að framkvæma þarf ákveðnar kerfisbreytingar vegna Landskrár fasteigna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum