Hoppa yfir valmynd
17. mars 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Athyglisverður dómur EFTA dómstólsins

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 13. mars 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í 61. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið kemur fram sú meginregla að óheimilt er að veita ríkisaðstoð sem er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum, eða framleiðslu ákveðinna vara, að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.

Á undanförnum misserum hafa komið upp álitamál um að hvaða marki þessi meginregla gildi á sviði þjónustu í almannaþágu og hvenær hægt sé að líta svo á að stofnanir á vegum ríkis eða sveitarfélags, sem sinna lögbundinni þjónustu í almannaþágu, séu skilgreindar sem fyrirtæki í skilningi ríkisstyrkjareglna og falli þar með undir umrædda 61. gr. samningsins um evrópska efnahagssvæðið. Þetta stafar af því einkaaðilar hafa í auknum mæli haslað sér völl á sviði þjónustu í almannaþágu.

Hefur framkvæmdastjórn ESB m.a. í því skyni gefið út leiðbeinandi reglur um ríkisaðstoð vegna þjónustu í almannaþágu. Þann 21. febrúar sl. kvað EFTA dómstóllinn upp athyglisverðan dóm í norsku máli þar sem reyndi á hvort opinber stuðningur við leikskóla í eigu sveitarfélaga kunni að fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Forsaga málsins var sú að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafði í febrúar 2007 úrskurðað að hinn opinberi stuðningur félli ekki undir 61. gr. EES-samningsins, um tilkynningarskylda ríkisaðstoð, þar sem leikskólar í eigu sveitarfélaga væru ekki fyrirtæki í skilningi 61. gr. og að stuðningurinn gæti ekki talist hafa skaðleg samkeppnisáhrif á viðskipti milli samningsaðila.

Einkarekinn leikskóli („Private Barnehagers Landsforbund”) kærði ákvörðun ESA til EFTA dómstólsins þar sem hann taldi að um ólögmæta ríkisaðstoð væri að ræða sem hefði neikvæð samkeppnisleg áhrif á sinn rekstur þar sem hann hefði ekki aðgang að samskonar ríkisaðstoð. Í dómi sínum staðfesti EFTA dómstóllinn niðurstöðu ESA um að ekki væri unnt að líta svo á að leikskóli í eigu sveitarfélags, sem nyti opinbers stuðnings, væri fyrirtæki í samkeppnisrekstri í skilningi 61. gr. EES-samningsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum