Hoppa yfir valmynd
7. mars 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vöruskiptin við útlönd í febrúar 2008

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. mars 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar voru fluttar inn vörur í febrúar fyrir 32 ma.kr. sem er lítilleg lækkun frá fyrri mánuði þegar fluttar voru inn vörur fyrir 33,7 ma.kr.

Fluttar voru út vörur fyrir 19,5 ma.kr. sem er nokkur lækkun frá fyrri mánuði og einnig minni útflutningur heldur en í febrúar á sl. ári. Vöruskiptajöfnuðurinn var því neikvæður sem nam 12,5 ma.kr. en á sl. ári var hallinn að meðaltali um 7,5 ma.kr. á mánuði.

Þegar rýnt er í undirliði inn- og útflutningsins ber helst til tíðinda að töluvert dregur úr innflutningi fólksbifreiða á milli mánaða en hann náði reyndar sögulegu hámarki í janúar sl. Einnig dregur nokkuð úr innflutningi á öðrum flutningatækjum til einkanota sem og flutningatækjum til atvinnurekstrar. Lítillega dregur úr innflutningi fjárfestingarvara og mat- og drykkjarvara en töluverður samdráttur er í innflutningi á varanlegum neysluvörum.

Á móti kemur að um 10% aukning er í innflutningi á eldsneyti og smurolíum sem og hrá- og rekstrarvörum, þar sem aukinn innflutningur á áloxíði vegur þungt. Þá er einnig nokkur aukning í innflutningi á hálf-varanlegum neysluvörum (fatnaður, skór ofl.). Má gera ráð fyrir að innflutningurinn dragist saman á næstunni samfara minni innflutningi fjárfestingarvara auk þess sem lægra gengi mun draga úr innflutningi fólksbifreiða og ýmissa neysluvara.

Hvað útflutninginn varðar þá er útflutningur sjávarafurða svipaður og undanfarna tvo mánuði en verð sjávarafurða í erlendri mynt er gott um þessar mundir auk þess sem gengi krónunnar hefur lækkað undanfarið. Útflutningur áls er nokkru minni en í janúar þrátt fyrir að verð á áli sé gott um þessar mundir eftir að dregið hefur úr framleiðslu Kínverja undanfarið vegna erfiðs árferðis. Það lítur því út fyrir að nokkur töf verði á því að útflutningurinn endurspegli framleiðslugetuna á áli en einungis er tímaspursmál hvenær við sjáum útflutningsverðmætið taka góðan kipp upp á við.

Sem fyrr er mat á hreyfingum undirliða inn- og útflutnings byggt á eigin útreikningum en ekki bráðabirgðatölum Hagstofunnar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum