Hoppa yfir valmynd
4. mars 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skattaleg meðferð söluhagnaðar í atvinnurekstri

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. febrúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Nú er til meðferðar hjá Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem varðar skattalega meðferð á sölu hlutabréfa hjá lögaðilum.

Forsögu þeirra breytinga má rekja allt aftur til vorsins 1998 þegar samþykkt var sú regla að arður myndaði ekki skattstofn væri hann greiddur milli hlutafélaga eða sambærilegra félagaforma. Samhliða var lögaðilum heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum ef önnur sambærileg væru keypt innan tveggja ára frá sölunni. Þessar reglur tóku til hlutabréfa annarra en veltuhlutabréfa, en veltuhlutabréf eru alla jafna skilgreind sem þau bréf sem ganga kaupum og sölu innan ársins. Samkvæmt gildandi lögum telst hagnaður af sölu veltuhlutabréfa til rekstrartekna og tap sem við slíka sölu myndast frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Frá því að framangreindar breytingar voru samþykktar hefur alþjóðlegt skattaumhverfi tekið stórfelldum breytingum í átt til lægri skattlagningar á atvinnurekstur og einfaldari og skilvirkari reglna. Það á ekki hvað síst við um skattlagningu fjármagnstekna, m.a. söluhagnaðar af hlutabréfum, enda er sá skattstofn afar kvikur. Þannig hafa íslensk félög í einhverjum mæli flutt eignarhald sitt á hlutabréfum yfir í dótturfélög í ríkjum þar sem skattlagning á söluhagnaði er talin hagstæðari en hér á landi.

Í ljósi þessarar þróunar er lagt til í umræddu frumvarpi að hagnaður lögaðila með takmarkaða ábyrgð eigenda, þ.e. hlutafélaga og einkahlutafélaga, af sölu hvers kyns hlutabréfa verði frádráttarbær frá tekjum með sama hætti og greiðslur arðs samhliða því að heimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar verði felld brott.

Grunnregla tekjuskattsálagningar þegar um atvinnurekstur er að ræða er sú að sá rekstrarkostnaður, sem gengur til öflunar, viðhalds eða tryggingar á skattskyldum tekjum, sé frádráttarbær frá þeim tekjum áður en til álagningar tekjuskatts kemur. Með öðrum orðum, skattfrjálsar tekjur takmarka rétt til frádráttar á rekstrarkostnaði. Í ljósi þess er lagt til í frumvarpinu að frádráttarbærni rekstrarkostnaðar verði takmörkuð á því ári sem skattfrjáls hagnaður af sölu hlutabréfa myndast eða er færður til tekna hjá viðkomandi lögaðila. Þá myndar tap umfram hagnað af sölu hlutabréfa innan ársins ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað. Sé til staðar yfirfæranlegt rekstrartap vegna fyrri ára þarf einnig að nýta það á móti hagnaði af sölu hlutabréfa og sama á við um yfirfæranlegt rekstrartap á söluári nema að því marki að rekstrarkostnaður sé umfram skattfrjálsan söluhagnað. Sé viðkomandi fyrirtæki í blönduðum rekstri skiptist rekstrarkostnaður í réttu hlutfalli við tekjurnar. Hafa ber í huga að þessi takmörkun á frádráttarbærni rekstrarkostnaðar nær þó ekki til arðgreiðslna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum