Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný skýrsla OECD um íslensk efnahagsmál

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 28. febrúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, birti í gær nýja skýrslu um íslensk efnahagsmál.

Í kjölfar mikilvægra skipulagsbreytinga og erlendrar fjárfestingar hefur íslenska hagkerfið gengið í gegnum skeið mikils hagvaxtar sem leiddi af sér umtalsvert innra og ytra ójafnvægi. Þótt nýlega hafi hægt á hagvexti og dregið úr ójafnvæginu hefur aðlögunin verið ójöfn en launaþróun, betri fjármögnunarskilyrði og aðgerðir stjórnvalda kyntu aftur undir eftirspurn og verðbólguþrýstingi á árinu 2007.

Að mati OECD er hagkerfið sveigjanlegt en áfram viðkvæmt fyrir viðhorfi erlendra fjárfesta, eins og sveiflur í gengi og verði hlutabréfa nýlega eru til marks um. Það er því höfuðverkefni stjórnvalda að endurheimta stöðugleika með því að tryggja að áfram muni draga úr ójafnvægi. Því til viðbótar er nauðsynlegt að efla getu bæði peningamála- og ríkisfjármálastjórnarinnar til að draga úr sveiflum í hagkerfinu og koma í veg fyrir að meiriháttar ójafnvægi skjóti aftur upp kollinum. Til lengri tíma litið eru horfur á útgjaldaþrýstingi á mörgum sviðum og því er það eitt höfuðverkefna stjórnvalda að endurskoða heilbrigðiskerfið.

Þótt opinber fjármál séu á heildina litið í góðu lagi eru heilbrigðismál (sem eru að miklu leyti fjármögnuð af hinu opinbera) uppspretta mikils útgjaldaþrýstings. Heilbrigðisástand er mjög gott, en kerfið er dýrt sem bendir til að auka þurfi hagkvæmni í ráðstöfun fjármuna.

Stofnunin telur að meginverkefni stjórnvalda sé að koma fljótt á stöðugleika og er lögð áhersla á eftirfarandi atriði:

  • Það þarf að koma skýrt fram að Seðlabankinn hiki ekki við að herða aðhald í peningamálum enn frekar ef nauðsyn krefur til að halda verðbólguvæntingum við verðbólgumarkmiðið. Til að styðja við trúverðugleika peningastefnunnar væri það hjálplegt ef aðilar í ríkisstjórn virtu sjálfstæði Seðlabankans við að marka stefnuna.
  • Á meðan eftirspurnar- og verðbólguþrýstingur er fyrir hendi er mikilvægt að forðast þensluhvetjandi aðgerðir í ríkisfjármálum. Eftir því sem tök eru á er einnig mikilvægt að stóriðjufjárfestingar verði innleiddar í hægum skrefum.

Þá þarf að styrkja þjóðhagslega stefnumörkun.

  • Þegar dregið hefur úr sveiflum í verðbólgu er nauðsynlegt að styrkja rammagerð fjárlaga með því að nota útgjaldaþak á nafnverði til margra ára í samræmi við verðbólgumarkmið. Innleiða þarf samskonar fjármálareglur fyrir sveitarfélög, með útgjaldatakmörkunum.
  • Þegar verðbólga er komin á markmið er æskilegt að laga umgjörð verðbólgumarkmiðsins (svo sem með breytingu á vísitölu markmiðsins).
  • Einnig er fjallað um þörfina á að endurskoða Íbúðalánasjóð sem nú skekkir dreifingu fjármuna og dregur úr skilvirkni peningamálastefnunnar og eykur þar með þjóðhagslegt ójafnvægi.

Heibrigðismálin fá að þessu sinni sérstaka umfjöllun, en stofnunin telur að bæta þurfi kostnaðarskilvirkni heilbrigðisgeirans.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum