Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Útgáfa á nýjum flokki ríkisbréfa

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 21. febrúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Ákveðið hefur verið að hefja útgáfu á nýjum flokki ríkisbréfa til ellefu ára.

Sex ár eru frá því að ríkissjóður gaf síðast út nýjan flokk ríkisbréfa til svo langs tíma. Sá flokkur er á gjalddaga eftir 5 ár og því var talin þörf á nýjum flokki óverðtryggðra bréfa til að mynda vaxtaviðmið til lengri tíma þrátt fyrir að fjármögnunar þörf ríkissjóðs sé nú engin.

Markmið útgáfunar er að mynda vaxtaviðmið fyrir aðra útgefendur óverðtryggðra skuldabréfa og auðvelda þannig verðlagningu á vaxtaskiptasamningum í krónum til 10 ára og mat á verðbólguvæntingum markaðarins til sama tíma. Ríkisbréfin eru óverðtryggð og bera ársvexti sem greiðast eftir á, 26. febrúar ár hvert. Auðkenni flokksins er RIKB 19 0226. Fyrsta útboð flokksins verður haldið í dag, 21. febrúar, og er áætlað að selja ríkisbréf fyrir allt að 10 milljarða króna. Gert er ráð fyrir að halda 5 útboð á árinu þar sem þessi flokkur verður boðinn til sölu og að gefið verði út fyrir allt að 35 milljarða króna.

Fyrsta útboðið verður með svokölluðu hollensku sölufyrirkomulagi. Það felur í sér að tilboð í ríkisbréf sem eru samþykkt í útboðinu seljast á sama verði. Aðalmiðlarar ríkisbréfa, sem eru 7 innlendir bankar, bjóða í vextina sem þeir óska eftir að fá greidda árlega. Hæsta samþykkta krafan, þ.e. lægsta tilboðsverðið sem ríkissjóður gengur að ræður söluverðinu. Niðurstaðan úr útboðinu mun síðan gefa vísbendingu um hvaða nafnvexti bréfið ber með sér. Ríkissjóður hefur heimild til þess að ákvarða nafnvexti á bréfunum með 25 punkta fráviki frá niðurstöðu úr útboðinu.

Hollenskt sölufyrirkomulag er víða þekkt og dregur mjög úr óvissu bjóðenda við að finna hvað er eðlilegt verð á flokki sem ekki á sér eiginlegt vaxtaviðmið. Næstu útboð með flokkinn verða svo með því sniði sem verið hefur, þ.e. samkeppnisútboð þar sem aðalmiðlarar senda inn verðtilboð.

Flokkurinn verður skráður í kerfi OMX Nordic Exchange Iceland. Viðskiptavakt verður í höndum aðalmiðlara ríkisverðbréfa en það mun tryggja seljanleika flokksins á eftirmarkaði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum