Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sótt í ríkiskassann

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 31. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Fjármálaráðuneytið heldur úti sérstökum vef sem ætlað er að bregða upp mynd af nokkrum meginatriðum í ríkisrekstri og efnahagsmálum.

Vefurinn nefnist rikiskassinn.is. Meðal efnis eru skilgreiningar og orðskýringar á ýmsum hugtökum sem gjarnan heyrast í opinberri umræðu.

Hér fara á eftir nokkur dæmi um orðskýringar sem ríkiskassinn hefur að geyma:

Hagræn skipting útgjalda

Umsvif ríkisins hafa ýmis áhrif á efnahagsstarfsemina. Sú venja hefur myndast í alþjóðlegum samanburði að skipta útgjöldum ríkisins í þrjá þætti með tilliti til þessa og er talað um hagræna skiptingu í því sambandi. Í fyrsta lagi beinan rekstur ríkisins og stofnana þess. Í öðru lagi tilfærslur fjármagns úr ríkissjóði til einstaklinga og fyrirtækja, svonefndar neyslu- og rekstrartilfærslur. Í þriðja og síðasta lagi meiriháttar viðhalds- og stofnkostnað.

Jaðarskattar

Með jaðarsköttum er átt við það hversu stór hluti af síðustu krónunni sem fólk vinnur sér inn fer í skatt til hins opinbera. Ýmsar bætur sem hið opinbera greiðir fólki ráðast af tekjum þess. Hugsunin er þá yfirleitt sú að þeir sem eru undir ákveðnum tekjum fái greiðslur frá ríkinu en að fjárhæðin lækki eftir því sem fólk á meiri eignir eða aflar sér meiri tekna sjálft. Tekjutenging bóta getur leitt til þess að viðbótartekjur sem fólk vinnur sér inn lækki bætur og virki eins og skattur. Jaðarskattur sýnir þannig hve stóran hluta af viðbótartekjum viðkomandi heldur eftir.

Landsframleiðsla

Landsframleiðslu er allt það sem framleitt er hérlendis burtséð frá því hvort framleiðslan er í eigu íslenskra eða erlendra aðila.

Landsframleiðsla er mælikvarði á það hversu mikið er framleitt af tilbúinni vöru og þjónustu í hagkerfinu. Vörur sem notaðar eru til að framleiða aðrar vörur eru ekki taldar með til þess að forðast tvítalningu.

Landsframleiðsla er notuð sem mælikvarði á velferð þjóða og breyting á landsframleiðslu milli ára, mæld í prósentum, kallast hagvöxtur.

Landsframleiðsluna er hægt að mæla og sýna á nokkra vegu en algengast er að hún sé sett fram samkvæmt svokallaðri ráðstöfunaraðferð. Hún byggist á því að gera grein fyrir hvernig þeim fjármunum sem verða til í hagkerfinu er ráðstafað. Einfaldasta form þjóðhagsreikningsins er þetta:

Verg landsframleiðsla = einkaneysla + samneysla + fjárfesting + birgðabreyting + útflutningur - innflutningur

Markaðar tekjur

Tekjur af sumum sköttum ríkisins eru beinlínis ætlaðar til að standa undir tilteknum útgjöldum. Þannig er til dæmis ákveðið að mestallar tekjur af svonefndu bensíngjaldi, sem er sérstök tegund af vörugjaldi, renni til vegagerðar. Sömuleiðis er fyrir fram ákveðið í lögum til hvaða þátta tekjur af tryggingagjaldi skuli renna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum