Fjármálaáætlun 2018-2022

31.3.2017

Fjármálaáætlun til fimm ára fyrir hið opinbera er lögð fram á Alþingi í dag.  Á næstu árum verður sérstök áhersla á uppbyggingu innviða og eflingu velferðarkerfisins, m.a. með stórauknum útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála. Skattkerfið verður einfaldað, skuldir greiddar hratt niður og miðað að því að skapa hagfelld skilyrði fyrir vaxtalækkun, og mynda þannig rými til að aukinna útgjalda og lægri skatta.

Á tímabilinu verður unnið að því að vega á móti þenslu í hagkerfinu, stuðla að sátt á vinnumarkaði, taka á gengisstyrkingu og efla opinbera þjónustu og styrkja innviði.

Helstu mál

Fjármálaáætlunin sýnir forgangsröð ríkisstjórnarinnar. Stærstu útgjaldaliðirnir eru heilbrigðis- og velferðarmál og er gert ráð fyrir að uppsafnaður raunvöxtur útgjalda til heilbrigðismála á tímabilinu verði 22% og 13% til velferðarmála.

Heilbrigðismál: Nýr Landspítali verður byggður á tímabilinu. Biðlistar verða styttir. Nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga tekur gildi og kostnaður sjúklinga lækkar.

Velferðarmál: Greiðslur foreldra í fæðingarorlofi verða hækkaðar. Frítekjumark vegna atvinnutekna eldri borgara verða hækkaðar í skrefum. Bótakerfi öryrkja verður endurskoðað, útgjöld aukin og aðstoð við atvinnuleit sömuleiðis. Stigin verða markviss skref til að leysa húsnæðisvandann og notendastýrð persónuleg aðstoð lögfest. Unnið verður gegn fátækt barna.

Þá eru í áætluninni sett fram markmið og stefnur í 34 málefnasviðum og 101 málaflokki.

Umbætur á skattkerfinu

Á gildistíma fjármálaáætlunar verður lögð áhersla á að auka skilvirkni í skattkerfinu. Á næstu misserum verður haldið áfram að endur­skoða skattkerfið með einföldun, skilvirkni og tekjuöflun ríkisins í huga og heildstæð skattastefna mótuð.

Helstu breytingar á skattkerfinu framundan snúa að breyttu virðisaukaskattskerfi og afnámi ívilnana og eru eftirfarandi:

  • Flestar tegundir ferðaþjónustu felldar undir almennt þrep virðisaukaskatts. Breytingin tekur gildi 1. júlí 2018 eða 15 mánuðum frá tilkynningu. Veitingaþjónusta verður áfram í lægra þrepi til samræmis við mat.
  • Með því myndast svigrúm til að lækka í kjölfarið almennt þrep virðisaukaskatts umtalsvert, eða úr 24,0% í 22,5%. Sú breyting taki gildi 1. janúar 2019.

 Með þessu minnkar bilið milli almenns þreps og lægra þreps virðisaukaskatts sem er mikil kjarabót fyrir neytendur en dregur einnig úr þörf fyrir verðhækkanir í ferðaþjónustunni. Áætlað er að vísitala neysluverðs lækki um 0,4% vegna þessa. Samtímis verður litið til þess að lækka tryggingagjald eftir því sem svigrúm verður til, sem kemur sér vel fyrir launafólk og atvinnulíf.

Kolefnisgjald, sem er lágt í alþjóðlegum samanburði, verður tvöfaldað. Áfram verður unnið að útfærslu heildstæðs kerfis grænna skatta. Áður lögfestar eða áformaðar skattkerfisbreytingar taka gildi á tímabilinu, þar á meðal vörugjald á bílaleigubíla, samsköttunarákvæði og lækkun bankaskatts.

Virðisaukaskattur í ferðaþjónustu

Um skattbreytingarnar í ferðaþjónustu hefur verið unnin sérstök kynning þar sem nánar er útlistað í hverju breytingarnar felast og hvaða áhrif þau eru talin hafa á greinina. Vöxturinn í greininni er talinn verða áfram kröftugur næstu misseri.

Efnahagshorfur góðar

 

Efnahagurinn er kröftugur. Hagvöxtur árið 2016 var meiri en reiknað var með og landsframleiðsla hefur aldrei verið meiri. Ráðgert er að framleiðsluspenna nái hámarki á þessu ári og fari svo minnkandi. Aðhald í ríkisfjármálum endurspeglar þessa spá.

Kaupmáttur hefur aukist verulega, eða 9,5% árið 2016, sem er mesta aukning á einu ári síðan mælingar hófust. Atvinnuþátttaka er með mesta móti í sögulegu tilliti og hefur atvinnuþátttaka kvenna aldrei verið meiri. Langtímaatvinnuleysi er hverfandi.

Áfram blasa við áskoranir, einkum í peninga- og gengismálum, á vinnumarkaði, og á húsnæðismarkaði ásamt örum vexti í ferðaþjónustu.

Skuldir lækka hratt

Sala eigna og arðgreiðslur, auk myndarlegs afgangs af rekstri, verða til þess að skuldir lækka hratt á tímabilinu. Gert er ráð fyrir að óreglulegar tekjur verði nýttar til að greiða niður lán. Á sama tíma hækkar landsframleiðsla svo hlutfall lána af landsframleiðslu lækkar.

Um fjármálaáætlun

Fjármálaáætlun er lögð fram á grundvelli nýlegra laga um opinber fjármál. Hún byggir á fjármálastefnu til fimm ára, sem lögð var fram í janúar og er til umfjöllunar á Alþingi. Fjármálastefna felur í sér almenn markmið um þróun opinberra fjármála, þ.e. ríkisins og sveitarfélaga. Ítarlegri útfærsla á markmiðum stefnunnar birtist í fjármálaáætluninni ásamt stefnumörkun um tekjur og gjöld opinberra aðila og þróun þeirra.

Fjármálastefna og -áætlun taka til opinberra aðila í heild, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja hins opinbera. Þótt ríkisreksturinn sé mun umfangsmeiri er það sameiginleg ábyrgð ríkis og sveitarfélaga að tryggja að ákvarðanir séu í samræmi við markmið hagstjórnar­innar, einkum að fjárfestingar séu minni þegar þensla er mikil og öfugt. Samstarf ríkisins við Samband íslenskra sveitarfélaga á sviði opinberra fjármála er einn lykilþáttur í því að tryggja aðhald í opinberum fjármálum á tímabilinu.


 

Til baka Senda grein