Nr. 40/2001. Fundur fjármálaráðherra EFTA- og ESB-ríkjanna í Brussel, 6. nóvember 2001.

6.11.2001

Fréttatilkynning
Nr. 40/2001

Fundur fjármálaráðherra EFTA- og ESB-ríkjanna
í Brussel, 6. nóvember 2001

Fjármálaráðherrar EFTA-og ESB-ríkjanna héldu sinn árlega fund í Brussel í dag. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sat fundinn fyrir Íslands hönd. Á fundinum var rætt um stöðu og horfur í alþjóðaefnahagsmálum, m.a. í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum. Einnig var fjallað um upptöku evrunnar um næstu áramót.

Ráðherrarnir töldu skjót viðbrögð stjórnvalda í kjölfar hryðjuverkanna hafa átt mikinn þátt í að koma í veg fyrir langvarandi röskun í gangverki efnahagslífsins, bæði hvað varðar starfsemi fjármálamarkaða og flugfélaga. Jafnframt bentu þeir á að traust staða efnahags- og ríkisfjármála og eflingu atvinnulífs á undanförnum árum skapaði góðan grundvöll til þess að mæta aðsteðjandi erfiðleikum án þess að grípa þyrfti til sérstakra neyðarúrræða.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, benti á að staða alþjóðaefnahagsmála væri nú venju fremur óviss. Framundan væri ákveðin aðlögun sem myndi í fyrsta lagi birtast í snarpri efnahagsniðursveiflu víða um heim. Í öðru lagi ríkti óvissa um hversu langvinn áhrif hryðjuverkanna yrðu á almennar væntingar í efnahagslífinu. Í þriðja lagi væri almennt búist við að efnahagslífið rétti úr kútnum um mitt næsta ár og að hagvöxtur á árinu 2003 yrði aftur viðunandi í flestum ríkjum, þar á meðal hér á landi.

Í þessu samhengi væri þó mikilvægt að stjórnvöld héldu ró sinni og forðuðust aðgerðir sem hefðu neikvæð áhrif á framvindu efnahagsmála til lengri tíma litið. Slíkar aðgerðir gætu stofnað í hættu þeim efnahagslega ávinningi sem orðið hefði á undanförnum árum og birst hefur m.a. í auknum stöðugleika og breytingum á skipulagi efnahagslífsins. Dagar fjármálalegra stuðningsaðgerða af hálfu ríkisins væri einfaldlega liðnir.


Fjármálaráðuneytinu, 6. nóvember 2001


Til baka Senda grein