Nr. 38/2001. Fundur fjármálaráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn, 29. október 2001.

29.10.2001

Fréttatilkynning
Nr. 38/2001

Fundur fjármálaráðherra Norðurlanda
í Kaupmannahöfn, 29. október 2001

Traust staða efnahagsmála á Norðurlöndum

Fjármálaráðherrar Norðurlanda hittust í Kaupmannahöfn í dag til að ræða ástand og horfur efnahagsmála í heiminum og áhrif þeirra á Norðurlöndin. Niðurstaða umræðna var að hægt hefði á hagvexti í heiminum að undanförnu og að hryðjuverkin í september hefðu orðið til að draga enn frekar úr hagvexti og auka óvissuna á sviði alþjóðaefnahagsmála. Þessa gætti einnig á Norðurlöndum og er þess að vænta að hagvöxtur þeirra yrði nokkuð lægri en áður hafði verið talið. Engu að síður töldu ráðherrarnir að ríkissjóðir allra Norðurlandanna myndu skila afgangi á þessu ári og því næsta og að skuldir ríkisins myndu halda áfram að lækka. Því var ályktað að Norðurlöndin væru í nokkuð sterkri stöðu til að mæta efnahagserfiðleikum á alþjóðavettvangi.

Ráðherrarnir töldu einnig að verðbólga á Norðurlöndum í heild væri tiltölulega stöðug þótt verðbólguþrýstings gætti í einstaka löndum. Í þessu sambandi lögðu þeir áherslu á að mikilvægt væri að huga að þróun kostnaðar og beita áframhaldandi aðhaldi í ríkisfjármálum. Það aðhald væri öllu fremur nauðsynlegt því fyrirsjáanlegt er að útgjöld til velferðarmála haldi áfram að aukast á næstu árum. Þrátt fyrir tímabundna efnahagslægð í heiminum er þess að vænta að atvinnuleysi verði áfram lítið í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og á Íslandi og haldi áfram að dragast saman í Finnlandi.

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, skýrði frá því að nokkur umskipti hefðu orðið í íslenskum efnahagsmálum að undanförnu. Eftir óvenju kröftugt hagvaxtarskeið á síðustu árum væru horfur á minni hagvexti í ár og næsta ár meðan efnahagslífið væri að leita nýs jafnvægis. Verulega hefði dregið úr innlendri eftirspurn og viðskiptahalli minnkaði hratt. Nokkuð hefði borið á tímabundinni verðbólgu á undanförnum mánuðum, en hún væri nú í rénun. Atvinnuástand væri enn gott þótt hjól atvinnulífsins væru farin að snúast hægar.

Á fundinum fjölluðu ráðherrarnir einnig um ýmis skattamál og helstu breytingar á því sviði að undanförnu. Í þeim umræðum gerði Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, grein fyrir þeim viðamiklum skattkerfisbreytingum sem ríkisstjórnin hefði ákveðið að beita sér fyrir á næsta ári. Meginmarkmið þeirra væri að treysta stöðu atvinnulífs og heimila og búa í haginn fyrir aukinn hagvöxt og aukinn þjóðhagslegan sparnað. Með þessum aðgerðum væri íslensku atvinnulífi búið eitthvert hagstæðasta skattaumhverfi sem þekktist í Evrópu og jafnvel víðar.

Þá ræddu ráðherrarnir ýmis þau málefni sem eru efst baugi hjá Evrópusambandinu og helstu áhersluatriði í formennskutíð Dana á síðari helmingi næsta árs. Ráðherrarnir voru á einu máli um að styrkja beri norrænt samstarf á sviði ESB/EES-mála og ákváðu að skoða nánar hvernig slíku starfi verði best hagað.

Loks ræddu ráðherrarnir ýmis málefni Norræna fjárfestingarbankans og framtíðarhlutverk hans, m.a. í Eystrasaltsríkjunum.


Fjármálaráðuneytinu, 29. október 2001


Til baka Senda grein