Nr. 34/2001. Fjárlagafrumvarp 2002

1.10.2001

Fréttatilkynning
Nr. 34/2001


FJÁRLAGAFRUMVARP 2002

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 ber með sér að skynsamleg stjórn ríkisfjármála á undanförnum árum hefur gert stjórnvöldum kleift að takast á við tímabundnar sveiflur í efnahagslífinu án þess að stefna árangri fyrri ára í hættu. Eftir kröftuga efnahagsuppsveiflu síðustu ár hefur hagkerfið færst nær jafnvægi á nýjan leik og þrátt fyrir samdráttarmerki er gert ráð fyrir að ríkissjóður muni halda áfram að skila myndarlegum afgangi og halda áfram að greiða niður skuldir. Við þessar aðstæður er mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Jafnhliða því hljóta megináherslur í hagstjórn að miða að því að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins, meðal annars með því að hamla gegn verðbólgu, stuðla að auknum hagvexti og bæta lífsskilyrðin í landinu. Þær aðgerðir sem boðaðar eru í frumvarpinu taka mið af þessum sjónarmiðum. Lækkun skatta og einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar eru mikilvægt framlag til þess að renna styrkum stoðum undir efnahagslífið og treysta atvinnu og almenn lífskjör í landinu. Það eru meginmarkmið fjárlagafrumvarpsins.

Staða ríkissjóðs áfram traust.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 gerir ráð fyrir að rekstrarafgangur ríkissjóðs verði 18,6 milljarðar króna, eða sem nemur 2S% af landsframleiðslu. Lánsfjárafgangur er áætlaður enn meiri, eða 41 milljarður króna. Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við þau meginmarkmið ríkisstjórnarinnar að draga úr verðbólgu og viðskiptahalla og tryggja varanlegan stöðugleika. 

 

 

 

 

Tekjuafgangur án óreglulegra liða.
Nokkur umræða hefur verið um tekjuafkomu ríkissjóðs í kjölfar niðurstöðu ríkisreiknings fyrir árið 2000. Til að meta hver staða ríkisins er að jafnaði er gagnlegt að skoða tekjuafgang ríkissjóðs að undanskildum óreglulegum tekjum og gjöldum.


 

 

 

 

 

 

Breyttar aðstæður í efnahagslífinu – ríkissjóður vel undirbúinn.
Veruleg umskipti hafa orðið í efnahagslífinu að undanförnu, dregið hefur úr innlendri eftirspurn og viðskiptahalli minnkar óðfluga. Einnig eru horfur á að verulega dragi úr verðbólgu á næstunni. Í kjölfarið hefur hagvöxtur minnkað. Þessi þróun leiðir óhjákvæmilega til minni tekjuauka hjá ríkissjóði og er því eðlilegt að við þessar aðstæður verði afgangur á ríkissjóði minni en verið hefur á undanförnum árum. Með skynsamlegri hagstjórn undanfarinna ára hefur hins vegar verið búið þannig í haginn að ríkissjóður er nú vel í stakk búinn til þess að bregðast við niðursveiflu án þess að þurfa að grípa til sértækra aðgerða eða hallareksturs. Umbætur síðastliðinna ára á efnahagsumhverfinu öllu hafa einnig styrkt undirstöðurnar og aukið möguleika einstaklinga og fyrirtækja til að standast tímabundna ágjöf.

Sveifluleiðréttur afgangur – skuldbindingar greiddar niður.
Þrátt fyrir samdrátt í hagvexti og minnkandi umsvif í hagkerfinu er sveifluleiðréttur afgangur af rekstri ríkissjóðs áætlaður enn meiri en hann var á síðasta ári, eða 2S%. Samkvæmt þessu mun nánast allur afgangur ríkissjóðs á næsta ári vera kerfislægur enda er í forsendum fjárlagafrumvarpsins gert ráð fyrir að kominn verði fram örlítill slaki í hagkerfinu á næsta ári sem gerir það að verkum að áhrif hagsveiflunnar á afkomu ríkissjóðs verða fremur neikvæð en jákvæð.

Útgjöld ríkissjóðs lækka að raungildi.
Heildarútgjöld ríkisins eru áætluð 239 milljarðar árið 2002 og aukast um 7 milljarða frá þessu ári. Útgjöldin dragast saman um 0,5% að raungildi frá áætlaðri útkomu ársins 2001 og hefur þá verið leiðrétt fyrir lífeyrisskuldbindingum. Sem hlutfall af landsframleiðslu lækka útgjöldin um 1% frá áætlaðri útkomu þessa árs og er það í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Almennur rekstrarkostnaður ríkisins lækkar um 1,4% að raungildi á milli ára en tekjutilfærslur hækka um 2,3%, m.a. vegna hækkunar almannatryggingabóta og aukinna framlaga til barnabóta í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Stórfelld lækkun skulda.
Samanlagður lánsfjárafgangur áranna 1998-2002 er áætlaður um 100 milljarðar króna og verður stærstum hluta hans áfram varið til að greiða niður skuldir ríkissjóðs og draga úr framtíðarskuldbindingum hans. Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum undanfarinna ára hefur skilað sér í mikilli lækkun skulda. Frá árinu 1995 hafa hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað úr rúmlega 34% af landsframleiðslu í 22% samkvæmt áætlun í árslok 2001 og talið er að skuldahlutfallið geti farið niður í rúmlega 14% í lok næsta árs.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Vaxtagjöld lækka að raungildi.
Niðurgreiðsla skulda ríkisins hefur skilað þeim árangri að vaxtakostnaður ríkissjóðs hefur lækkað að raungildi á síðustu árum. Varlega áætlað má ætla að vaxtalegur ávinningur ríkisins af 100 milljarða króna lánsfjárafgangi nemi um 5 milljörðum króna.

Mikilvægir áfangar í sölu ríkisfyrirtækja á næstunni.
Á þessu ári og því næsta verða stigin veigamikil skref í sölu ríkisfyrirtækja. Hér vegur þyngst sala á stærstum hluta ríkisins í Landssímanum, Landsbanka og Búnaðarbanka. Sala eigna mun skila umtalsverðum tekjum í ríkissjóð og gefa færi á að lækka skuldir ríkissjóðs svo um munar auk þess sem hún samræmist markmiðum ríkisstjórnarinnar um samkeppnisvæðingu og aukið frelsi á markaðinum.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svigrúm til skattalækkana.
Við aðstæður sem nú eru veigamikil rök fyrir því að lækka skatta, jafnt á fyrirtæki sem einstaklinga. Þessi atriði hafa verið til ítarlegrar skoðunar á vegum ríkisstjórnarflokkanna að undanförnu. Sterk afkoma ríkissjóðs og aðhaldssöm fjármálastefna ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum gefur þessum hugmyndum byr undir báða vængi. Með skynsamlegum skattaaðgerðum er hægt að koma í veg fyrir neikvæða keðjuverkun í efnahagslífinu og ríkisvaldið getur þannig verið aflvaki í jákvæðum viðbrögðum hagkerfisins við niðursveiflunni. Meðal annars hefur verið rætt um lækkun tekjuskatts fyrirtækja, lækkun eignarskatta, lækkun stimpilgjalds og hækkun viðmiðunarmarka í sérstökum tekjuskatti einstaklinga. Auk þess hefur verið rætt um afnám verðbólgureikningsskila.

Aðrar umbætur á skattkerfinu þegar hafnar.
Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir að hækkun fasteignamats leiði til hækkunar eignarskatta á næsta ári. Um næstu áramót lækkar tekjuskattshlutfall einstaklinga um 0,33% í framhaldi af ákvörðun ríkisstjórnarinnar við endurskoðun kjarasamninga á liðnum vetri. Enn fremur tekur þá gildi næstsíðasti áfangi þess að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur milli maka.

Skatttekjur ríkissjóðs nær óbreyttar að raungildi.
Heildartekjur ríkissjóðs á næsta ári eru áætlaðar tæplega 258 milljarðar króna, eða 5 milljörðum hærri en í ár. Tekjurnar lækka hins vegar um tæplega 8 milljarða að raungildi milli ára sem einkum má rekja til minni tekna af sölu eigna. Skatttekjur haldast nokkurn veginn óbreyttar að raungildi, lækka reyndar lítillega. Hlutfall skatttekna af landsframleiðslu hefur farið lækkandi að undanförnu og lækkar enn á næsta ári, eða um 0,5%.

Ríkisfjármál gegna áfram lykilhlutverki í hagstjórn.
Við þær aðstæður sem hér ríkja þar sem fullkomið frelsi ríkir á fjármagnsmarkaði er hlutverk ríkisfjármála í hagstjórn breytt frá því sem áður var. Þannig er ekki hægt að beita þeim með sama hætti og áður til að breyta raunstærðum í efnahagslífinu með skjótvirkum hætti. Þess í stað verður hlutverk ríkisfjármála í ríkari mæli en áður að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum þegar til lengri tíma er litið. Þetta verður best gert með því að tryggja viðunandi afgang á rekstri ríkissjóðs og að skattalegt umhverfi í landinu miði að því að ná fram sem mestri hagkvæmni hvort sem er í rekstri heimila eða fyrirtækja. Þróun síðustu ára gefur glöggt merki um þann árangur sem náðst hefur.Fjármálaráðuneytinu, 1. október 2001

Til baka Senda grein