Nr. 33/2001. Reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda

27.9.2001

Fréttatilkynning
Nr. 33/2001

Fjármálaráðherra hefur gefið út reglugerð um skipulag opinberra framkvæmda á grundvelli laga nr. 84/2001.

Reglugerðin kemur í kjölfar nefndarstarfs sem átt hefur sér stað frá byrjun þessa árs, en þá skipaði fjármálaráðherra nefnd til að fara yfir verklag við opinberar framkvæmdir.

Reglugerðin mælir í fyrsta lagi fyrir um ítarlegri undirbúning en verið hefur, áður en ákvörðun er tekin um að hefja framkvæmd. Í öðru lagi um að hver áfangi framkvæmdarinnar sé skýrt afmarkaður með formlegri afgreiðslu og ákvarðanatöku áður en heimilt er að hefja næsta áfanga. Í þriðja lagi skilgreinir reglugerðin hlutverk og ábyrgð þeirra sem standa að opinberri framkvæmd innan hvers áfanga hennar.

Ítarlegri undirbúningur
Með reglugerðinni er lögð áhersla á ítarlegan undirbúning opinberrar framkvæmdar til að styrkja undirstöður hennar. Lögð er áhersla á að efla þátt frumathugunar við opinberar framkvæmdir, en í frumathugun felst könnun á þeim þörfum sem þarf að leysa og samanburður á þeim möguleikum sem til greina koma við þá lausn. Slík könnun getur beint sjónum manna að öðrum möguleikum en byggingu mannvirkis eins og t.d. leigu eða endurskipulagningu starfseminnar.

Með frumathugun er umfang framkvæmdarinnar mótað og því mikilvægt að við gerð hennar fari fram vönduð greining á þeim kröfum sem gerðar eru til verkefnisins. Þetta leiðir til þess að strax í upphafi liggur fyrir afstaða hlutaðeigandi ráðuneytis til verkefnisins og umfangs þess áður en ráðist er í hönnun mannvirkisins.

Ráðuneytið mun setja nánari reglur um frumathugunina sjálfa og hvað hún eigi að innihalda.

Skýrari áfangaskipting og formleg ákvarðanataka
Reglugerðin mælir fyrir um skýrari áfangaskiptingu á hinum fjórum áföngum opinberrar framkvæmdar, þ.e. frumathugun, áætlunargerð, verklegri framkvæmd og skilamati. Það leiðir til betri yfirsýnar yfir framkvæmdina og afmörkunar hennar því við lok hvers áfanga fer fram formleg afgreiðsla og endurmat áfangans ásamt því að samanburður er gerður við fyrri áfanga. Ákvarðanataka verður og markvissari en ella því forsendur eru skýrari.

Samkvæmt reglugerðinni verður ekki heimilt að hefja áætlunargerð fyrr en fjármálaráðuneyti hefur formlega fallist á frumathugunina. Sama gildir um verklega framkvæmd, hana er ekki heimilt að hefja fyrr en fullnaðarhönnun liggur fyrir. Verklega framkvæmdin sjálf skal fara fram á grundvelli áætlunargerðarinnar og innan ramma hennar. Skýr fyrirmæli eru um að fari verk út fyrir samþykkta áætlun skuli endurskoðuð áætlun án tafa lögð fyrir fjármálaráðuneyti til samþykktar ella skuli framkvæmdin stöðvuð.

Skýrara hlutverk og ábyrgð
Jafnhliða ítarlegri undirbúningi og skýrri áfangaskiptingu mælir reglugerðin fyrir um hlutverk og ábyrgð þeirra aðila sem koma að einstökum áföngum verksins. Eðli máls samkvæmt koma mjög margir að mótun og gerð mannvirkja bæði varðandi stjórn og ráðgjöf. Það er því mikilvægt að ábyrgðarskil þessara aðila séu skýr þannig að alltaf fari saman bæði fagleg og stjórnunarleg ábyrgð frá upphafi til enda mannvirkjagerðarinnar.

  • Í reglugerðinni er tekið fram að hlutaðeigandi ráðuneyti sjái um og beri ábyrgð á fyrstu tveimur áföngunum, þ.e. gerð og framlagningu frumathugunar og áætlunargerðar. Þetta á einnig við þótt ráðuneytið fái aðra til að sjá um gerð gagnanna.
  • Framkvæmdasýsla ríkisins ber ábyrgð á hinum tveimur áföngunum sem eru verkleg framkvæmd og skilamat. Hún stjórnar framkvæmdinni og ber ábyrgð á að hún sé unnin á grundvelli samninga við verktaka og í samræmi við þær áætlanir sem ráðuneyti hafa unnið og fjármálaráðuneyti hefur formlega fallist á. Skorti fullnægjandi heimildir, er henni óheimilt að hefja framkvæmd eða halda henni áfram.
  • Framkvæmdasýsla ríkisins ber einnig ábyrgð á framkvæmdaeftirliti á verktímanum og mælt er fyrir um skyldu hennar til að upplýsa ráðuneyti reglulega um framvindu verks og fjárhagslega stöðu og kalla án tafa eftir endurskoðun á áætlun stefni í röskun á kostnaði.
  • Til að tryggja enn betur hlutverk hvers aðila við hverja verkframkvæmd er mælt fyrir um að gerður skuli samningur milli viðkomandi ráðuneytis og Framkvæmdasýslu ríkisins þar sem nánar er kveðið á hvernig haga skuli boðleiðum milli aðila, upplýsingaflæði milli þeirra ásamt öðrum atriðum varðandi skipulag framkvæmdarinnar.


Starfsreglur samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Reglur um skilamat.
Samhliða setningu reglugerðarinnar hefur fjármálaráðherra sett starfsreglur Samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir, en hlutverk hennar er að vera fjármálaráðuneytinu til ráðgjafar um fjármálalega framkvæmd laga um skipan opinberra framkvæmda og rannsaka frumathugun og áætlunargerð.

Þá eru einnig auglýstar reglur um gerð skilamats að lokinni framkvæmd en tilgangur skilamats er að safna upplýsingum og reynslutölum um framkvæmdir í því skyni að styrkja verklag við opinberar framkvæmdir.

Fjármálaráðuneytinu, 27. september 2001

Til baka Senda grein