Nr. 25/2001. Undirskrift samnings um nýtt fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkissjóð og stofnanir hans

17.7.2001

Fréttatilkynning
Nr. 25/2001

Undirskrift samnings um nýtt fjárhags- og mannauðskerfi fyrir ríkissjóð og stofnanir hans

Í dag var undirritaður samningur milli Skýrr hf. og fjármálaráðherra um kaup á fjárhags- og mannauðskerfum fyrir ríkissjóð og stofnanir hans.

Forsaga málsins er sú að árið 1999 ákvað fjármálaráðuneytið að bókhalds- og launakerfi ríkisins skyldu endurnýjuð en þau kerfi eru komin mjög til ára sinna. Launakerfið var tekið í notkun 1978 og bókhalds- og áætlunarkerfið 1987. Ákveðið var að leita eftir tilboðum í staðlað kerfi í stað þess að smíða nýtt kerfi frá grunni. Verkefnið var boðið út af Ríkiskaupum í janúar sl. og bárust átta tilboð í verkið. Í lok apríl var ákveðið að velja tvö tilboðanna til sérstakrar skoðunar samkvæmt ákvæðum útboðsskilmála. Hér var um að ræða tilboð frá Skýrr hf. og tilboð frá Nýherja hf. Þann 22. júní sl. ákvað fjármálaráðherra að gengið skyldi til viðræðna við Skýrr hf. og var sú ákvörðun byggð á tillögu stýrinefndar á vegum Ríkisbókhalds, sem fer með framkvæmd málsins fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

Kerfi það sem hefur verið ákveðið að kaupa byggir á lausnum Oracle e-business suite og verður aðlagað og innleitt hjá stofnunum ríkisins af Skýrr hf. Samningurinn gerir ráð fyrir að sú vinna taki 20 mánuði og verklok verði 1. apríl 2003. Gert er ráð fyrir að fyrsta stofnunin til að taka kerfið í notkun verði Landspítalinn háskólasjúkrahús.

Samningsupphæð nemur 819 m.kr. og tekur hún til notendaleyfa, viðhaldsgjalda á 1. ári, innleiðingar kerfisins og kennslu. Jafnframt nemur árlegt viðhald eftir það 69 m.kr. næstu 10 árin.Fjármálaráðuneytinu, 17. júlí 2001


Til baka Senda grein