Nr. 23/2001. Kaup á nýju fjárhags- og starfsmannahaldskerfi fyrir ríkið

22.6.2001

Fréttatilkynning
Nr. 23/2001

Kaup á nýju fjárhags- og starfsmannahaldskerfi fyrir ríkið

Fjármálaráðherra hefur ákveðið að gengið skuli til viðræðna við Skýrr hf um kaup á nýju fjárhags- og starfsmannahaldskerfi fyrir ríkið á grundvelli útboðs Ríkiskaupa í janúar sl. Ákvörðun þessi er byggð á tillögu stýrinefndar á vegum Ríkisbókhalds, sem er framkvæmdaraðili málsins fyrir hönd fjármálráðuneytisins. Kaup á þessum kerfum er veigamikill þáttur í því að styrkja stjórnun ríkisstofnana og efla rafræna stjórnsýslu eins og hvarvetna er nú stefnt að.

Í lok apríl s.l. var ákveðið að velja tvö af átta tilboðum til sérstakrar skoðunar samkvæmt ákvæðum útboðsskilmála. Hér er um að ræða tilboð Skýrr hf sem byggir á lausnum svokallaðs Oracle e-business suite og tilboð Nýherja hf sem byggir á grunni svokallaðra SAP-kerfa.

Fjárhags- og starfsmannakerfi beggja bjóðenda uppfylla mjög vel útboðskröfur. Vinnubrögð og efnistök starfsmanna beggja fyrirtækja sýndu að hvor aðilinn sem er væri líklegur til að skila verkinu með ágætum hætti. Í verðsamanburði kemur fram verulegur munur Skýrr hf í hag.Fjármálaráðuneytinu, 22. júní 2001

Til baka Senda grein