Nr. 17/2001. Fréttatilkynning frá utanríkis-, fjármála- og umhverfisráðuneytinu um ráðherrafund OECD 2001

17.5.2001

Fréttatilkynning
Nr. 17/2001

Fréttatilkynning frá utanríkis-, fjármála- og umhverfisráðuneytinu
um ráðherrafund OECD 2001

Dagana 16.-17. maí sl. var haldinn í París árlegur ráðherrafundur Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar, OECD. Fundinn sátu fyrir Íslands hönd Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, og Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri, í fjarveru utanríkisráðherra.

Á fundinum var fjallað um stöðu og horfur í efnahagsmálum, meðal annars í ljósi áhrifa hins nýja hagkerfis. Rætt var um horfur í alþjóðaviðskiptum og líkur á nýrri lotu um hið fjölþjóðlega viðskiptakerfi á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).Fundurinn var að hluta sameiginlegur fundur fjármálaráðherra og umhverfisráðherra þar sem m.a. var fjallað um sjálfbæra þróun og mikilvægi þess að aukinn hagvöxtur leiddi ekki til samsvarandi aukningu á neikvæðum umhverfisáhrifum.

Á fundi utanríkisviðskiptaráðherra var meginumræðuefnið hvernig OECD gæti stuðlað að því að ný lota um frekara frjálsræði í viðskiptum yrði ýtt úr vör á vegum WTO á ráðherrafundi samtakanna sem haldinn verður í Qatar í nóvember n.k. Áhersla var lögð á að mæta yrði sjónarmiðum þróunarríkja sem telja sig ekki enn hafa notið verulegs ávinnings af auknu viðskiptafrelsi og alþjóðavæðingu. Ráðherrar voru samstíga um að kapp bæri að leggja á að ný viðtæk lota hæfist í kjölfar þess fundar.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins kvað Ísland styðja að sem víðtækust lota gæti hafist en gæta yrði raunsæis og feta í því sambandi bil þess mögulega og þess æskilega. Lagði hann ríka áherslu á að mistökin frá ráðherrafundinum í Seattle yrðu ekki endurtekin en til þess að svo mætti vera yrði að vanda vel til undirbúnings fyrir ráðherrrafundinn í nóvember. Ásættanleg niðurstaða um sameiginlegar lausnir og samræmingu mismunandi sjónarmiða í viðskiptalegu tilliti væri bundin því að verulega sterkur pólitískur vilji væri fyrir hendi hjá stærstu aðildarríkjunum, en slíku var ekki til að dreifa í Seattle.

Á fundi umhverfisráðherra OECD var samþykkt umhverfisáætlun stofnunarinnar fyrir næsta áratug. Í áætluninni er að finna fimm meginmarkmið sem ríki OECD setja sér á tímabilinu fram til 2010. Meðal þeirra mála sem markmiðin taka til að vinna gegn má nefna loftslagsbreytingar af mannavöldum, röskun vistkerfa, röskun byggðar, ofveiði, mengun grunnvatns, heilbrigðisvandamál vegna mengunar, loftmengun í þéttbýli og ofnýting endurnýjanlegra auðlinda.

Í umræðum um áætlunina lagði Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra áherslu á að OECD ríkin innleiddu markaðslausnir til að ná markmiðum í umhverfismálum og greindi frá árangri Íslendinga af beitingu spilliefnagjalds til að bæta söfnun og meðhöndlun hættulegra efna.

Á sameiginlegum fundi fjármála- og umhverfisráðherra vakti Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, meðal annars athygli á að víðtækt samkomulag virtist vera um það á fundinum að besta leiðin til að tryggja farsælt samspil hagvaxtar og umhverfismála væri að beita aðferðum markaðshagkerfisins. Jafnframt benti hann á að þessi mál hefðu um langt skeið verið í brennidepli á Íslandi. Í þessu sambandi nefndi hann þá stefnu stjórnvalda að varðveita og stuðla að uppbyggingu fiskistofna við Ísland. Ennfremur vakti hann athygli á að Ísland væri í fremstu röð hvað varðaði nýtingu endurnýjanlegra auðlinda eins og vatns- og raforku. Það væri því kaldhæðnislegt að Ísland ætti í erfiðleikum með að samþykkja Kyoto-bókunina vegna þess að ekki væri tekið tillit til raunverulegra aðstæðna í hverju landi fyrir sig.

Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra gerði loftslagsbreytingar að meginatriði málflutnings síns sem hún kvað orðið mjög brýnt að takast á við og því fyrr sem það yrði gert þeim mun mildari yrðu efnahagsleg áhrif aðgerða. Hún taldi nauðsynlegt að undirbúningsvinnu yrði lokið á þessu ári til að ryðja brautina fyrir staðfestingu Kyoto bókunarinnar. Þessi ráðherrafundur OECD hefði nú samþykkt að beita markaðsaðgerðum til að fást við loftslagsbreytingar. Það væri því öfugsnúið að ágreiningur ríkja um leiðir til að fást við vandamálið snerist um kostnað og markaðsaðgerðir.

Á fundi fjármálaráðherra OECD-ríkjanna fjallaði Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, meðal annars um stöðu efnahagsmála og helstu forsendur fyrir áframhaldandi hagvexti, m.a. með tilliti til áhrifa hins nýja hagkerfis. Hann benti meðal annars á að mikilvægi nýja hagkerfisins væri ekki síst í því fólgið að ýmsar hefðbundnar atvinnugreinar, eða hið svokallaða gamla hagkerfi, nýttu sér í sífellt vaxandi mæli kosti og framþróun hinna nýju atvinnugreina á sviði fjarskipta, upplýsinga- og tölvutækni til þess að auka framleiðni og hagkvæmni í rekstri. Þetta yrði hinn raunverulegi ávinningur af hinu nýja hagkerfi, en ekki skammvinn uppsveifla í einstaka tæknigreinum.

Hann benti jafnframt á að Ísland stæði að mörgu leyti framarlega á þessu sviði og beinlínis í fremstu röð hvað varðar farsímanotkun og útbreiðslu veraldarvefsins. Þá væri rafvæn vinnsla opinberra gagna og skil á skattframtölum mjög þróuð.

Mikilvægast væri þó að undirstöður efnahagslífsins væru traustar, að efnahagsstefnan stuðlaði að stöðugleika, að ríkisfjármálin væru í góðu lagi og verðbólgu væri haldið í skefjum. Þetta væri forsenda áframhaldandi hagvaxtar og batnandi lífskjara.Nýja hagkerfið myndi hvorki koma í staðinn fyrir ýmsar hefðbundnar atvinnugreinarnar né leysa gömlu efnahagsvandamálin. Áfram væri mikilvægt fyrir stjórnvöld að hafa góða gætur á verðbólgu, viðskiptahalla, atvinnuleysi o.fl.

Ráðherrafundur OECD samþykkti ítarlega yfirlýsingu sem að stórum hluta er helguð sjálfbærri þróun. Þar er m.a. að finna samþykkt, grundvallaða á tillögu Íslands, sem felur í sér að fiskveiðistefnur aðildarríkja OECD skuli fást við sambandið milli skynsamlegrar nýtingu fiskistofna og frjálsræðis í viðskiptum, um orsakir rányrkju og nauðsyn þess að beita ekki skaðlegum ríkisstyrkjum í sjávarútvegi. Í því sambandi er OECD falið að greina skaðsemi þessara ríkisstyrkja í samvinnu við FAO og önnur alþjóðasamtök sem við slíkt fást.

Yfirlýsingu ráðherrafundarins í heild sinni er að finna á heimasíðu OECD: www.oecd.org

Fjármálaráðuneytinu, 17. maí 2001

Til baka Senda grein