Nr. 15/2001. Árlegur fundur fjármálaráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins haldinn í Helsingør 3.-4. maí 2001

4.5.2001

Fréttatilkynning
Nr. 15/2001


Caio Koch-Weser (Þýskalandi), K.J. Ners (Pólland), Gundars Berzins (Lettland), Geir H. Haarde,
Mindaugas Jonikas (Litháen), Marianne Jelved (Danmörk), Karl Eirik Schjøtt-Pedersen (Noregur),
Sauli Niinistö (Finnland), Bosse Ringholm (Svíþjóð) og Siim Kallas (Eistland)

Árlegur fundur fjármálaráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins
haldinn í Helsingør 3.-4. maí 2001


Sjötti árlegi fundur fjármálaráðherra aðildarríkja Eystrasaltsráðsins var haldinn í Helsingør dagana 3.-4. maí. Aðild að ráðinu eiga Þýskaland, Pólland, Eystrasaltsríkin þrjú og Norðurlöndin. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sat fundinn af Íslands hálfu.

Á fundinum var fjallað um skattamál og hugsanleg skaðleg áhrif skattasamkeppni milli landa. Einnig var rætt um þróun og aukna samhæfingu fjármálamarkaða. Þá var fjallað um sjálfbæra þróun og beitingu hagrænna aðgerða í umhverfismálum. Loks var rætt um upptöku evrunnar.

Greint var frá hugmyndum innan Evrópusambandsins um að draga úr óæskilegum áhrifum skattasamkeppni, til dæmis á stöðu ríkisfjármála og þar með hugsanlega á stöðu velferðarkerfisins.

Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, benti á að samkeppni milli landa á sviði skattamála gæti verið æskileg frá sjónarhóli einstaklinga og fyrirtækja og þyrfti ekki að hafa skaðleg áhrif á stöðu ríkisfjármála og velferðarmála ef þess væri gætt að hafa skattkerfið gagnsætt og álagningarreglur almennar og einfaldar. Heilbrigt atvinnulíf væri ein mikilvægasta forsenda áframhaldandi velmegunar og aukins hagvaxtar og þar með velferðarkerfisins.

Ráðherrarnir fjölluðu ennfremur um þróun og aukna samhæfingu fjármálamarkaða. Talið var mikilvægt að hlúa vel að þessum þætti hagkerfisins en jafnframt leita leiða til þess að tryggja stöðugleika á mörkuðunum.

Loks fjölluðu ráðherrarnir um sjálfbæra þróun og beitingu hagrænna aðgerða í umhverfismálum.

Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, benti á mikilvægi þess að tryggja stöðugan hagvöxt þar sem jafnframt væri tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Í þessu skyni hefði íslenska ríkisstjórnin nýlega samþykkt fjögurra ára áætlun með tiltekin markmið að leiðarljósi. Ennfremur gerði ráðherrann grein fyrir sérstöðu Íslands, meðal annars hvað varðar sjálfbæra þróun og uppbyggingu fiskistofnanna og nýtingu þeirra gífurlegu náttúruauðlinda sem fælust í vatnsorku landsins. Ekki er um það deilt að beislun og nýting vatnsorkunnar í framleiðsluskyni er afar umhverfisvæn aðgerð í samanburði við aðrar tegundir orku og að nýting hennar í þágu orkufreks iðnaðar t.d. á Íslandi sé umhverfisvænni kostur. Hann benti hinsvegar á að ekki væri tekið nægilegt tillit til þessara sjónarmiða í Kyoto-bókuninni.
Fjármálaráðuneytinu, 4. maí 2001

Til baka Senda grein