Fréttatilkynning nr. 6/2001. Bætt framkvæmd fjárlaga.

13.2.2001

Fjármálaráðherra hefur gefið út sérstaka reglugerð um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum stofnana ríkisins. Markmið reglugerðarinnar er að skýra og skerpa á fjárhagslegri ábyrgð og verkaskiptingu milli ráðuneyta og forstöðumanna ríkisstofnana. Þá gefa reglurnar forskrift að eftirfylgni og úrræðum ráðuneyta og skilgreina þau mörk þegar skylt er að grípa til sérstakra aðgerða vegna umframútgjalda. Við samningu reglugerðarinnar var byggt á reynslunni af verklagsreglum um sama efni sem í gildi voru á sl. ári.

Meginefni reglugerðarinnar er að skilgreina ábyrgð og hlutverk ráðuneyta annars vegar og forstöðumanna hins vegar. Í því felst skylda ráðuneytanna til að upplýsa forstöðumenn um heimildir fjárlaga og aðrar fjárhagslegar forsendur áætlanagerðar. Forstöðumenn bera ábyrgð á gerð og framkvæmd ársáætlunar sem skilað er til viðkomandi ráðuneytis. Gerðar eru ákveðnar lágmarkskröfur til verklags við áætlanagerð og er þar m.a. byggt á hugmyndafræði árangursstjórnunar. Í reglugerðinni er kveðið á um skyldur forstöðumanna og ráðuneyta til að upplýsa fjármálaráðuneytið um, skýra og leggja til aðgerðir vegna umframútgjalda innan árs sem víkja meira en 4% frá áætlun.

Í reglugerðinni er fjallað sérstaklega um ýmis útgjaldatilefni sem upp kunna að koma innan ársins sem leiða til óhjákvæmilegrar greiðsluskyldu ríkissjóðs. Í þeim tilfellum leggur fjármálaráðuneytið mat á hvort útgjöldin séu ófyrirséð og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir þeim. Þarna getur verið um að ræða áhrif kjarasamninga, lagabreytingar og önnur atriði sem áhrif geta haft á efnahagsforsendur fjárlaga.

Þá eru áréttuð ákvæði í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er lúta að setningu erindisbréfa forstöðumanna og ábyrgð þeirra á rekstri stofnana sinna. Lokakafli reglugerðarinnar fjallar um þau úrræði sem ráðuneytum ber að grípa til ef sýnt þykir að tillögur forstöðumanns um aðgerðir í rekstri duga ekki til að bæta rekstrarstöðu stofnunar.

Reglugerðin tekur til ríkisstofnana í A-hluta fjárlaga, en ekki til sjálfseignarstofnana sem fá framlög úr ríkissjóði, þar sem rekstur þeirra er ekki á ábyrgð ríkisins.


Fjármálaráðuneytinu, 13. febrúar 2001
Til baka Senda grein