Fréttatilkynning nr. 2/2001. Fundur norrænna fjármálaráðherra í Reykjavík.

23.1.2001

Fjármálaráðherrar Norðurlanda halda reglulegan fund sinn í Reykjavík á morgun, miðvikudaginn 24. janúar. Einnig verða á fundinum ráðherrar frá Færeyjum og Álandseyjum. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra situr fundinn fyrir Íslands hönd.

Á fundinum verður meðal annars rætt um stöðu og horfur í efnahagsmálum á Norðurlöndunum. Einnig verður hið svokallaða "nýja hagkerfi" til umfjöllunar og rætt verður um áhrif þess og umfang á Norðurlöndunum. Ráðherrarnir munu ennfremur fjalla um ýmis mál sem á döfinni eru innan Evrópusambandsins í kjölfar leiðtogafundarins í Nice í desember á síðasta ári.

Ráðherrafundurinn verður haldinn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og að honum loknum, kl. 11:45, er boðað til blaðamannafundar þar sem ráðherrarnir verða til staðar til að svara spurningum blaðamanna.


Fjármálaráðuneytinu, 23. janúar 2001

Til baka Senda grein