Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Stóraukin framlög til heilbrigðis-, löggæslu- og örorkumála lögð til við 2. umræðu fjárlaga

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram tillögur að breytingum við aðra umræðu fjárlagafrumvarps ársins 2023 í fjárlaganefnd Alþingis, þar sem gert er ráð fyrir auknum framlögum til nokkurra veigamikilla málaflokka. Þyngst vega heilbrigðismál, þar sem lögð er til rúmlega 12 milljarða króna aukning – en að auki má m.a. nefna löggæslumál, málefni öryrkja og fatlaðs fólks, orkumál og nýsköpun. Á sama tíma er staðinn vörður um þau meginmarkmið opinberra fjármála að stöðva hækkun skuldahlutfalla.

Efling sjúkrahúsa, ný lyf og átak í biðlistum

Af þeim 12,2 ma.kr. sem lagðir eru til í heilbrigðismál er gert ráð fyrir að 4,3 ma.kr. renni í að styrkja Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæsluna. Auk þess er lögð til hækkun, m.a. til að skapa svigrúm til upptöku nýrra lyfja, ásamt verkefnum til að auðvelda heilbrigðiskerfinu að glíma við eftirköst kórónuveirufaraldursins. Meðal þeirra er átak í að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum ásamt því sem framlög eru aukin til heimahjúkrunar og aðgerða til að dreifa álagi í heilbrigðisþjónustu.

Landhelgisgæslan efld og barist gegn skipulagðri brotastarfsemi

Tillögurnar gera ráð fyrir stórauknum framlögum á sviði almanna- og réttaröryggis. Lagt er til að auka framlög til lögreglunnar um 900 m.kr. með hliðsjón af markmiðum um viðbragðstíma, málsmeðferðarhraða og öryggisstigs auk 500 m.kr. hækkunar í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.

Þá er lagt til að styrkja Landhelgisgæsluna með 600 m.kr. hækkun, m.a. vegna aukins eldsneytiskostnaðar, endurnýjunar búnaðar og leigu nýs flugskýlis.

Frítekjumark öryrkja hækkað

Lagt er til að framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála hækki um 3,7 ma.kr. en þar af fari 1,1 ma.kr. til að hækka frítekjumark atvinnutekna öryrkja í 200.000 kr. á mánuði.

Alls er gert ráð fyrir að hækkun vegna ýmissa verkefna sem tengjast fjölgun flóttafólks og umsækjendum um alþjóðlega vernd, ásamt stuðningi við Úkraínu, nemi um 5 ma.kr.

Þá er í forsendum endurskoðaðrar tekjuáætlunar gert ráð fyrir að ríkissjóður gefi eftir 5 ma.kr. af tekjuskatti einstaklinga á móti samsvarandi hækkun í útsvarstekjum sveitarfélaga til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks. Gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög geri með sér sérstakt samkomulag um þessar breytingar sem komi sem viðauki við fyrri samkomulög um fjármögnun málaflokksins.

Áframhaldandi orkuskipti og átak í jarðhitaleit

Af öðrum málum má nefna að lögð er til hækkun til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina sem nemur 5,5 ma.kr. en stærsti hluti þess er annars vegar 4 ma.kr. til að mæta áætlaðri fjárþörf vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á næsta ári og hins vegar 1,3 ma.kr. vegna uppfærðrar áætlunar á styrkjum til fyrirtækja vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði.

Lögð er til 1,7 ma.kr. hækkun á málefnasviði orkumála. Skýrist það af 1 ma.kr. tillögu um stuðning við kaup bílaleiga á hreinorkubílum ásamt því að lagt er til að flytja 550 m.kr. af málefnasviði umhverfismála til að styrkja Orkusjóð tímabundið í tengslum við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og 150 m.kr. tímabundið til þriggja ára í jarðhitaleitarátak.

Veruleg aukning útgjalda undanfarin ár

Framlög til flestallra veigamikilla málaflokka hafa vaxið verulega undanfarin ár og gera það áfram í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ef horft er aftur til fjárlaga ársins 2017 má nefna eftirfarandi örfá dæmi af mörgum um útgjaldaaukninguna að teknu tilliti til þeirra tillagna sem raktar voru að framan:

  • Ríflega þriðjungsaukning í framlögum til sjúkrahúsþjónustu, eða sem nemur tæplega 36 milljörðum króna.
  • 40% aukning framlaga til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, eða um 21 milljarð króna.
  • 35% aukning framlaga til málefna örorku og fatlaðs fólks, eða um 24 milljarða króna.
  • Tæplega fjórðungsaukning til málefna aldraðra, eða um 20 milljarða króna.
 

Afkoman batnað mikið frá heimsfaraldri

Þrátt fyrir aukin útgjöld er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu ríkisfjármálanna og hvika ekki frá því meginmarkmiði að stöðva hækkun skuldahlutfalla á næstu árum. Í ár hefur dregið hratt úr miklum hallarekstri ríkissjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrifum heimsfaraldursins á fjárhag heimila og fyrirtækja. Sú ráðstöfun gerði samfélaginu mögulegt að nýta þau tækifæri sem rénun faraldursins hafði í för með sér.

Efnahagsbatinn hefur leitt til aukinna tekna ríkissjóðs og þess að skuldahlutföll hins opinbera eru mun lægri en óttast var fyrir aðeins nokkrum misserum. Eftir hraðan efnahagsbata er nú svo komið að nokkur spenna hefur myndast í þjóðarbúinu. Við þær aðstæður er mikilvægt að ríkisfjármálastefnan rói ekki í gagnstæða átt við stefnu Seðlabankans.

Fyrir aðra umræðu fjárlaga hafa tekjuáætlanir verið uppfærðar. Útlit er fyrir að tekjur ríkissjóðs árið 2023 verði 24 ma.kr. hærri en útlit var fyrir við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september. Frumútgjöld, þ.e. útgjöld að frádegnum vaxtagjöldum, hækka um 37 ma.kr. vegna þeirra þátta sem raktir eru hér að framan. Vaxtagjöld hækka einnig um 14 ma.kr., þar af má rekja ríflega 10 ma.kr. til áhrifa verðbólgu á verðtryggð lán ríkissjóðs. Alls er því lögð til 50,6 ma.kr. hækkun á fjárheimildum málefnasviða, eða 3,8%. Halli á rekstri ríkisjsóðs verður því 2,9% af landsframleiðslu, eða 116 ma.kr.

Frumhallinn er hins vegar nærri 1% af landsframleiðslu, sem er nokkru meiri halli en útlit var fyrir við framlagningu frumvarpsins en nærri sá sami og stefnt var að við framlagningu fjármálaáætlunar fyrr á árinu. Hafa verður í huga að 5 ma.kr. af verri frumjöfnuði í heild stafa af tilfærslu frá ríki til sveitarfélaga, líkt og fjallað er um að framan. Útlit er fyrir að skuldahlutföll verði að sama skapi nær óbreytt samþykktri fjármálaáætlun frá því í sumar, eða um 33% af VLF.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum