Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Vegna tilkynningar lífeyrissjóða um málefni ÍL-sjóðs

Í tilkynningu til fjölmiðla frá lífeyrissjóðum vegna álitsgerðar lögfræðistofunnar Logos um málefni ÍL-sjóðs kemur fram „að ÍL-sjóður hafi orðið til þegar Íbúðalánasjóði var skipt upp með lögum árið 2019 en með þeim var fjármálaráðherra falin yfirumsjón með sjóðnum. Við breytinguna hafi ÍL-sjóður orðið hluti verkefna fjármála- og efnahagsráðuneytis sem fari með daglega stjórn sjóðsins. Þannig sé ÍL-sjóður ekki undirstofnun ráðherra, enda hafi fjármálaráðherra stjórnsýslu- og rekstrarlegt forræði yfir sjóðnum. ÍL-sjóður teljist því ekki sérstök undirstofnun, heldur hluti ráðuneytisins“.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vill árétta að þessi skilningur er ekki í samræmi við ákvarðanir Alþingis sem teknar voru með tvennum lögum árið 2019. Með lagasetningu árið 2019 voru stofnaðar tvær stofnanir, HMS og Húsnæðissjóður. Í lögum um þær stofnanir nr. 137/2019 segir í 14. gr. (gildistaka):

„Íbúðalánasjóður, sem fær nafnið ÍL-sjóður við gildistöku laga þessara, sinnir áfram þeim verkefnum og fer með þau réttindi, skyldur, eignir og skuldbindingar Íbúðalánasjóðs sem flytjast ekki til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Húsnæðissjóðs.“

Íbúðalánasjóður var því hvorki lagður niður né með neinum hætti sameinaður almennum rekstri ríkissjóðs. Til þess hefði þurft sérstaka löggjöf sem ekki er til staðar. Um ÍL-sjóð gilda einnig í dag lög nr. 151/2019 um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs en þar er settur rammi um hvernig unnið verði úr eignum og skuldum. Í meðferð þess frumvarps á Alþingi var lögð áhersla á að sjóðurinn væri sjálfstæð stjórnsýslueining og meðal annars ákveðið að honum skyldi skipa verkefnastjórn og sérstök reglugerð sett um starfsemi sjóðsins. Íbúðalánasjóður (ÍL-sjóður) var áfram til sem sjálfstæð lögpersóna í kjölfar breytinganna.

Eins og kemur fram í skilmálum íbúðabréfa og í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra til þingsins um málefni ÍL-sjóðs, hvílir einföld ábyrgð ríkissjóðs á skuldum ÍL-sjóðs. Því hefur hvorki verið breytt með lögum né öðrum ráðstöfunum. Stjórnvöld hafa sem fyrr segir boðið eigendum skuldabréfa til viðræðna með það fyrir augum að finna megi viðunandi lausn á málinu og eyða lagalegri óvissu vegna uppsafnaðs fjárhagsvanda sjóðsins.

Í síðustu viku setti fjármála- og efnahagsráðuneytið fram megináherslur í samningaviðræðum við eigendur skuldabréfanna. Þar er meðal annars fjallað um að stefnt sé að uppgjöri þar sem allar kröfur verði gerðar upp að fullu ásamt áföllnum vöxtum og verðbótum. Einnig voru sett fram markmið um að tryggja fjármálastöðugleika og að við samningsgerð yrði eftir fremsta megni horft til hagsmuna og þarfa mótaðila.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum