Hoppa yfir valmynd
10. júní 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfirlýsing stjórnvalda og SFS um losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslensks sjávarútvegs

Íslensk stjórnvöld ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi stefna í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslensks sjávarútvegs frá 2005 til 2030. Unnið verður sameiginlega að skilgreindum aðgerðum sem stuðla eiga að því að markmiðið náist. Þetta er inntak yfirlýsingar sem gefin var út í dag.

Í yfirlýsingunni segir að hún feli í sér mikla áskorun enda hafi orðið mikill samdráttur í losun undanfarin ár. Næstu skref reyna því enn frekar á gott samstarf stjórnvalda og greinarinnar, þannig að markmiðinu verði náð og samkeppnishæfni sjávarútvegs um leið treyst enn frekar. Unnið verður að þessu marmiði m.a. með sameiginlegum aðgerðum á grunni tillagna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi.

Yfirlýsingin í heild: 

Forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti ásamt Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi stefna í sameiningu að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna olíunotkunar íslensks sjávarútvegs frá 2005 til 2030. Ljóst er að í þessu felst mikil áskorun, enda hefur orðið mikill samdráttur í losun undanfarin ár. Næstu skref reyna því enn frekar á gott samstarf stjórnvalda og greinarinnar, þannig að markmiðinu verði náð og samkeppnishæfni sjávarútvegs um leið treyst enn frekar. Náist markmiðið hefur verið stigið mikilvægt skref í átt að minni losun enda er losun frá olíunotkun fiskiskipa, bæði íslenskra og erlendra, um 18% af heildarlosun á beinni ábyrgð Íslands.

Stjórnvöld og greinin munu vinna að þessu markmiði m.a. með sameiginlegum aðgerðum á grunni tillagna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi. Í því skyni munu stjórnvöld og greinin í sameiningu:

  1.  Meta fýsileika og mögulegar útfærslur kvótakerfis fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi sem varðað getur leiðina að markmiðinu.
  2.  Vinna drög að frumvarpi um skattalega ívilnun vegna fjárfestinga sem draga úr losun greinarinnar en falla utan nýsamþykkts frumvarps um grænar fjárfestingar.
  3. Móta áherslur fyrir stuðning opinberra sjóða við rannsóknir og þróun tengdum orkuskiptum í sjávarútvegi.
  4.  Auka fræðslu í sjávarútvegi um leiðir til að draga úr losun við núverandi tæknistig.
  5.  Endurbæta spálíkön um eldsneytisnotkun í sjávarútvegi.
  6.  Kanna fýsileika íblöndunar endurnýjanlegs eldsneytis og kortleggja heimildir vélaframleiðenda á notkun slíks eldsneytis.
  7.  Gera úttekt á áhrifum hækkandi kolefnisgjalds á losun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs.

Þessi skref verða stigin í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ráðherra og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi frá árinu 2020. Ákvæðum yfirlýsingarinnar um fjárhagslega hvata sem styðja við kolefnisbindingu og útfösun kælimiðla verður einnig fylgt eftir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum