Hoppa yfir valmynd
10. júní 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skýrsla starfshóps um græn skref í sjávarútvegi

Starfshópur fjármála- og efnahagsráðherra um græn skref í sjávarútvegi leggur til að Ísland stefni að a.m.k. 50% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda vegna fiskiskipa sem kaupa eldsneyti á Íslandi til ársins 2030 miðað við árið 2005. Auk þess verði stefnt að því að losun frá fiskiskipum í íslenskum höfum verði alfarið útrýmt frá árinu 2026. Árið 2030 verði komið skip í fiskiskipaflotann sem verði knúið endurnýjanlegum orkugjöfum og í flota smábáta verði a.m.k. 10% nýrra báta knúin rafmagni að hluta eða öllu leyti frá árinu 2026. Starfshópur ráðherra var skipaður í júní 2020 og hefur nú skilað skýrslu sinni.

Samhliða útgáfu skýrslunnar er gefin út yfirlýsing stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja i sjávarútvegi. 

Eldsneytisnotkun um borð í fiskiskipum í íslenskri lögsögu stendur að baki um 18% af þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum. Markmið og aðgerðir á þessu sviði eru því snar þáttur í stefnumótun stjórnvalda á sviði loftslagsmála.

Starfshópurinn leggur til tvær meginleiðir til að varða þann samdrátt sem þarf að verða í losun fiskiskipa til að Ísland nái markmiðum sínum og skuldbindingum í loftslagsmálum:

  • Sameiginleg yfirlýsing stjórnvalda og greinarinnar um samdrátt í losun: Á grunni þess árangurs sem náðst hefur við að draga úr losun frá íslenskum sjávarútvegi, yfirlýsts vilja greinarinnar til að draga enn úr losun og hraðrar alþjóðlegrar þróunar sammælist stjórnvöld og greinin um að stefna að a.m.k. 50% samdrætti í losun íslenskra skipa frá 2005 til 2030 og skilgreindar vörður á þeirri leið.
  • Leið framseljanlegra losunarkvóta: Leitað verði leiða til að móta umgjörð um framseljanlegar en stiglækkandi losunarheimildir í anda loftslagskvótakerfis Evrópusambandsins eða Nýja-Sjálands. Ef vel tekst til getur þessi leið nýtt hugkvæmni greinarinnar til að draga úr losun með sem minnstum tilkostnaði.

Auk þessara meginleiða leggur starfshópurinn til fjölmargar aðgerðir sem hver og ein getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipum:

  •  Skattalegir hvatar til fjárfestinga sem draga úr eldsneytisnotkun í sjávarútvegi verði efldir.
  •  Endurbætt styrkjakerfi: Orkusjóði, Loftslagssjóði og rannsókna- og þróunarsjóðum verði sett skýr stefna um stuðning við nýsköpun, orkustýringu og orkuskipti á hafi.
  • Íslenska ríkið fari fram með góðu fordæmi við nýsmíðar skipa sem séu hönnuð til að mæta kröfum um orkuskipti og bætta orkunýtingu.
  • Sett verði krafa um stighækkandi hlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í seldu skipaeldsneyti á Íslandi. Íblöndun er sérstaklega mikilvæg leið til að draga úr losun frá erlendum skipum við Ísland, enda fáar aðrar aðgerðir sem stuðlað geta beint að samdrætti í losun þeirra.
  • Aukið gagnsæi: Margar útgerðir birta þegar umhverfisskýrslur og hafa sett sér skýra stefnu í umhverfismálum. Gera ætti kröfu um opinbera birtingu eldsneytisnotkunar og losunar til allra þeirra sem fá úthlutað fiskveiðiheimildum.
  •  Bætt spágerð: Lögð verði áhersla á bætta spágerð um eldsneytisnotkun og losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi.
  • Regluverk verði greint: Lög og regluverk um fiskveiðistjórnun, hafnir, skip og báta verði greint til að koma í veg fyrir að þau hindri að óþörfu bætta orkunýtingu eða innleiðingu endurnýjanlegra orkugjafa.
  • Átak í menntun og fræðslu: Tryggt verði að allir skipstjórnendur fái fræðslu um losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi og hvernig hegðun þeirra getur stuðlað að samdrætti í losun.
  • Sett verði á skylda um nýtingu rafmagns í höfnum þar sem því verður komið við.

Hópurinn leggur til að næstu skref verði:

  • Frumvarp um skattalega ívilnun fjárfestingar í sjávarútvegi sem dragi úr losun greinarinnar innan ramma ríkisstyrkjareglna verði unnið fyrir haustþing.
  • Mótuð verði heildstæð stefna um stuðning við orkuskipti í sjávarútvegi fyrir opinbera sjóði, þ.m.t. fyrir rannsóknir og þróun, menntun og spágerð.
  •  Ráðgjafar verði fengnir til að meta til hlítar fýsileika og útfærslur losunarkvótakerfis fyrir sjávarútveg.
  •  Áhrif hækkandi kolefnisgjalds á losun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs verði rannsökuð frekar í ljósi alþjóðlegrar þróunar til aukinnar skattlagningar á gróðurhúsalofttegundir og útvíkkunar á losunarkvótum.
  • Í samstarfi við framleiðendur og innflytjendur skipavéla, SFS og með stuðningi ráðgjafa verði söluskylda íblandaðs, endurnýjanlegs eldsneytis undirbúin og fýsileiki kannaður, þ.m.t. varðandi stuðning við vottun endurnýjanlegs eldsneytis og kortlagningu á heimildum vélaframleiðenda á notkun þess eldsneytis. Þessari vinnu verði lokið fyrir mitt ár 2022.
  •  Eigi síðar en árið 2025 verði í ljósi þróunar og tækniframfara endurmetið markmið um a.m.k. 50% samdrátt í losun vegna olíunotkunar fiskiskipa sem kaupa eldsneyti á Íslandi.

Þessi skref verði stigin í samstarfi við sjávarútveginn á grunni samstarfsyfirlýsingar stjórnvalda og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi frá 2020.

Auk framangreindra tillagna er í skýrslunni fjallað um stöðu og þróun í losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum sjávarútvegi, helstu áhrifaþætti og möguleika á orkuskiptum. Einnig er fjallað um alþjóðlega þróun og stefnumótun en þótt orkuskipti í skipum séu skammt á veg komin alþjóðlega eru líkur á mikilli framþróun á þessu sviði á næstu árum.

Starfshópur ráðherra var skipaður í tengslum við aðgerð B.1 í aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum um að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda frá sjávarútvegi með blönduðum aðgerðum. Aðrar aðgerðir í aðgerðaáætlun sem tengjast sjávarútvegi eru m.a. rafvæðing hafna, bann við notkun svartolíu, rafvæðing fiskimjölsverksmiðja og reglugerð og skattlagning á F-gös. Heildarmarkmið Íslands í loftslagsmálum gagnvart Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er að Ísland dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% eða meira til 2030 miðað við 1990. Auk þess hafa stjórnvöld sett markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040.

Í starfshópi ráðherra sátu Tómas Brynjólfsson (formaður), Agnes Guðmundsdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Erla Sigríður Gestsdóttir, Jón Þrándur Stefánsson, Eggert Ólafsson og Sveinn Agnarsson. Henný Hinz tók við af Unni Brá í október. Ólafur Heiðar Helgason var starfsmaður hópsins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum