Hoppa yfir valmynd
26. júní 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný stjórnendastefna ríkisins: Bætt færni stjórnenda og aukinn samfélagslegur ávinningur

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út stjórnendastefnu ríkisins sem er fyrsta heildstæða stefnan um starfsumhverfi forstöðumanna ríkisstofnana, ráðuneytisstjóra og annara sem hafa stjórnun að meginstarfi hjá ríkinu. Stefnan er liður í því að efla stjórnun hjá ríkinu, vinna að betri og öflugri þjónustu við samfélagið sem miðar að því að bæta lífskjör í landinu. Í stefnunni er kveðið á um hvaða hæfni, þekkingu og eiginleika stjórnendur þurfa að bera og hvernig ríkið ætlar að styðja við stjórnendur til að ná góðum árangri.

Í stefnunni eru hæfnikröfur til stjórnenda skilgreindar í svokallaðri kjörmynd. Ætlast er til að stjórnendur hafi til að bera heilindi og leiðtogahæfni, leggi áherslu á árangursmiðaða stjórnun, auk þess að rækta með sér góða samskiptahæfni. Kjörmyndin dregur fram skýra mynd af því sem einkennir góða stjórnendur og verður m.a. nýtt við skilgreiningu á hæfniþáttum við ráðningu, gerð starfsþróunaráætlana, skipulagningu fræðslu og til framtíðar einnig við mat á frammistöðu stjórnenda.

Til þess að stjórnendur nái árangri og þróist í starfi er jafnframt mikilvægt að ríkið búi þeim eftirsóknarvert starfsumhverfi. Í stefnunni er fjallað um áherslur ríkisins þegar kemur að starfsumhverfi stjórnenda, allt frá vönduðu ráðningarferli til starfsloka. Starfskjör eru mikilvægur þáttur í því að skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi á sama tíma og laun þurfa að fylgja almennri launaþróun á vinnumarkaði. Í samræmi við áherslur stefnunnar byggir nýtt launaumhverfi forstöðumanna á samræmdu og gagnsæju matskerfi. Einnig er lögð áhersla á að stjórnendur fái hvatningu og endurgjöf til að geta þróast og náð árangri í starfi. Gert er ráð fyrir að slík endurgjöf fari fram í reglulegu stjórnendasamtali um árangur og framtíðaráform í starfsemi stofnunar auk frammistöðu stjórnanda. Niðurstaða slíks samtals nýtist m.a. við áframhaldandi starfsþróun stjórnanda.

Stjórnendastefnu ríkisins fylgir jafnframt aðgerðaáætlun til næstu þriggja ára, þar sem aðgerðir, ávinningur og tímasetningar eru skilgreindar. Framkvæmd aðgerðaáætlunar er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Í ágúst hefst vinna við fyrstu aðgerðirnar, samræmingu ráðningarferla, undirbúning stjórnendasamtala og gerð viðmiða um hreyfanleika stjórnenda og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði lokið snemma á árinu 2020. 

Stefnan er sett á grundvelli c. liðar 39. gr. laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996 en ákvæðið, sem mælir fyrir um að ráðherra skuli setja stjórnendastefnu, kom inn í lögin við breytingu á lögum um kjararáð við lok ársins 2016. Stjórnendastefnan var unnin í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í nánu samstarfi við önnur ráðuneyti og Félag forstöðumanna ríkisstofnana. Auk þess fór stefnan í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem hún hlaut almennt góðar viðtökur.

Stjórnendastefna ríkisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum