Hoppa yfir valmynd
7. júní 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna um áskoranir fjármálamarkaða til framtíðar

Þátttakendur í ráðstefnunni komu frá 30 löndum.  - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson

Lærdómur sem draga má af fjármálakreppunni fyrir áratug og sá árangur sem Ísland náði í endurreisn efnahags- og ríkisfjármála, uppbyggingu fjármálakerfisins og umgjörð þess í kjölfar kreppunnar, var meðal umræðuefna á ráðstefnu skuldastýrenda þjóðríkja og sérfræðinga í opinberum fjármálum, sem haldin var í Reykjavík dagana 3.-5. júní.
Á ráðstefnunni var rætt um framtíðarsýn fyrir fjármagnsmarkaði, þær áskoranir og tækifæri sem tækniframfarir hafa í för með sér og hvernig hægt er að bæta aðferðir við að meta áhættu svo koma megi í veg fyrir aðra fjármálakreppu.

Fjármagnsmarkaðir og fjármálakerfi standa í auknum mæli frammi fyrir áhættuþáttum tengdum alþjóðastjórnmálum og ýmsum félagslegum áskorunum sem mikilvægt er að bregðast við, ekki síst fjárhagslegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Stafræn þróun og gervigreind eru að umbreyta virkni fjármálamarkaða og hvernig fjárfestar safna og nýta upplýsingar í fjárfestingarákvörðunum, meðal annars út frá umhverfis- og félagslegum þáttum, auk stjórnhátta.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið stóð að ráðstefnunni í samstarfi við Alþjóðabankann. Ráðstefnan er haldin árlega og þetta var í 38. sinn sem hún fer fram. Meðal frummælenda voru Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri. Um 90 manns frá 30 löndum sóttu ráðstefnuna, en þetta var í fyrsta sinn sem hún var haldin á Íslandi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum