Hoppa yfir valmynd
29. mars 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Metfjöldi Evrópugerða á fjármálamarkaði tekinn upp í EES-samninginn

Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar í Brussel fyrr í dag voru 234 Evrópugerðir felldar inn í EES-samninginn. Af þeim eru 155 gerðir á sviði fjármálaþjónustu. Þessi mikli fjöldi upptekinna gerða á einum fundi á sér ekki margar hliðstæður og aldrei fyrr hafa svo margar gerðir á sviði fjármálaþjónustu verið teknir upp í samninginn í einu.

Undir lok 2018 biðu rúmlega 600 gerðir upptöku í EES-samninginn sem tekið höfðu gildi innan ESB. Tæpur helmingur þessara gerða var á sviði fjármálaþjónustu. Eftir fundinn í dag hefur upptökuhallinn vegna gerða á sviði fjármálaþjónustu þannig ríflega helmingast. Upptökuhalli gerða á sviði fjármálaþjónustu stafar einkum af því að eftir alþjóðlegu lánsfjárkreppuna 2007-2008 hóf Evrópusambandið fordæmalausa endurskoðun á löggjöf á sviði fjármálamarkaðar. Leiddi það til mikilla breytinga og voru nýjar gerðir samþykktar af hálfu Evrópusambandsins m.a. á banka-, verðbréfa- og vátryggingamarkaði. Jafnframt voru settar á fót nýjar evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði.

Helstu gerðir á sviði fjármálaþjónustu sem teknar voru upp í samninginn í dag eru eftirfarandi:

  • Tilskipun um starfsumhverfi og eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og reglugerð um varfærniskröfur í starfsemi fjármálafyrirtækja (CRD IV tilskipunin og CRR reglugerðin).
  • Tilskipun og reglugerð um markaði fyrir fjármálagerninga (MiFID II tilskipunin og MiFIR reglugerðin).
  • Reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins um lýsingu sem birta skal við útboð verðbréfa á almennum markaði eða þegar þau eru tekin til viðskipta.

Eftir upptöku gerða í EES-samninginn ber Íslandi að innleiða þær í íslenskan rétt. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur hafið innleiðingu á þeim gerðum á fjármálamarkaði sem teknar voru upp í samninginn í dag og raunar hefur stærstur hluti gerðanna á bankamarkaði þegar verið tekinn upp í íslensk lög. Stefnt er að því að þær gerðir sem eftir standa verði innleiddar á næsta löggjafarþingi og að drög að fyrstu lagafrumvörpum um þær innleiðingar verði birt í samráðsgátt stjórnvalda á vormánuðum. Þessari löggjöf er m.a. ætlað að stuðla að heilbrigðari rekstri fjármálafyrirtækja og aukinni neytendavernd.

 

Umfjöllun á vef EFTA

Listi yfir gerðirnar á vef EFTA


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum