Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fundur um eflingu nýsköpunar hjá hinu opinbera: Nýsköpunarstefna Íslands lögð fram í vor

Þátttakendur í vinnufundinum deildu hugmyndum um hvernig hægt er að láta nýsköpun dafna hjá hinu opinbera. - mynd

Á vormánuðum verður lögð fram nýsköpunarstefna Íslands, sem unnin er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, stóð í vikunni fyrir vinnufundi um nýsköpun hjá hinu opinbera þar sem m.a. var teiknað upp nýsköpunartré í því skyni að deila hugmyndum um hvernig hægt er að láta nýsköpun dafna hjá hinu opinbera.

Nýsköpun 

Nýsköpun og hvers konar hagnýting hugvits er mikilvæg forsenda fjölbreytts atvinnulífs, sterkrar samkeppnisstöðu, hagvaxtar og velferðar þjóða, ekki síst í ljósi þeirra þjóðfélagsbreytinga sem vænta má í atvinnu- og menntamálum vegna örra tæknibreytinga. Á fundinum var unnið að áherslumálum í nýsköpun hjá hinu opinbera sem innlegg í nýsköpunarstefnu Íslands. Nýsköpun á opinberum vinnustöðum getur aukið gæði opinberrar þjónustu, aukið skilvirkni og starfsánægju og er því mjög mikilvægt að starfsumhverfi hins opinbera styðji við nýsköpun. Fjölbreyttur hópur aðila sem vinnur að nýsköpun hjá ríki og sveitarfélögum var saman kominn á fundinum og unnu að tillögum um áherslur.

Á fundinum kynnti Þórlindur Kjartansson, verkefnastjóri nýsköpunarstefnunnar, vinnu við hana. Gert er ráð fyrir að stefnan liggi fyrir í maí og gildi til ársins 2030. Stefnan er mótuð í víðtæku samstarfi stjórnvalda, atvinnulífs og vísinda- og menntasamfélags. Áherslur nýsköpunar hjá hinu opinbera fara í opið samráð á samráðsgátt stjórnvalda áður en þær verða settar fram í nýsköpunarstefnu Íslands.

Flestar stofnanir innleitt nýsköpunarverkefni

Þá voru kynntar niðurstöður Nýsköpunarvogarinnar um stöðu nýsköpunar hjá ríki og sveitarfélögum. Er þetta í fyrsta skipti sem niðurstöður eru birtar fyrir hið opinbera í heild, þ.e. vinnustaði ríkis og sveitarfélaga. Niðurstöðurnar sýna að 78% opinberra vinnustaða hafa innleitt nýsköpunarverkefni á síðastliðnum tveimur árum. Frekari niðurstöður úr könnuninni verða birtar á næstunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum