Hoppa yfir valmynd

Gjaldeyrismál

Samkvæmt lögum um gjaldeyrismál, nr. 70/2021, er meginreglan sú að gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar á milli landa og greiðslur á milli landa skuli vera frjáls.

Þó er heimilt að grípa til ráðstafana sem fela í sér undantekningar frá meginreglunni til þess að standa vörð um efnahagslegan stöðugleika eða fjármálastöðugleika. Um er að ræða úrræði af tvennum toga: annars vegar fyrirbyggjandi stjórntæki á sviði þjóðhagsvarúðar og hins vegar verndunarráðstafanir (höft) við sérstakar aðstæður.

Stjórntækin í þágu þjóðhagsvarúðar eru þrenns konar og fela í sér heimildir Seðlabankans til að setja i) á sérstaka bindiskyldu vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, ii) reglur um útlán lánastofnana tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu og iii) reglur sem takmarka afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli.

Seðlabankinn hefur jafnframt heimild til að setja reglur um verndunarráðstafanir til að bregðast við hættu á alvarlegri röskun á stöðugleika í gengis- og peningamálum sem teflt gæti stöðugleika fjármálakerfisins í tvísýnu. Heimildin er sambærileg þeim sem lagðar voru til grundvallar þeim fjármagnshöftum sem hér voru í gildi í um áratug í kjölfar fjármálaáfallsins árið 2008 og byggist meðal annars á reynslu af framkvæmd þeirra.

Takmarkanir á fjármagnshreyfingum eru almennt í andstöðu við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Ber þar helst að nefna samninginn um Evrópska efnahagssvæðið sem hefur þá meginreglu að fjármagsnflæði skuli vera frjálst, sbr. 40. og 41. gr. samningsins. Samþykktir Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um afnám hafta á fjármagnshreyfingar (Codes of Liberalisation of Capital Movements) kveða í meginatriðum á um skuldbindingar aðildríkjanna til þess að aflétta hömlum á fjármagnshreyfingum og gjaldeyrisviðskiptum sem þeim tengjast. Þá er í stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eingöngu heimilt, þegar slíkt tilefni er til, að takmarka fjárflæði sem fellur undir fjármagnsjöfnuð en ekki þær sem falla undir viðskiptajöfnuð.

Lög og reglur um gjaldeyrismál eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og engar sérstakar undanþágur eða heimildir eru í gildi vegna gjaldeyrismála hér á landi.

Á þessari síðu má, til upplýsinga, finna greinargerðir sem fjármála- og efnahagsráðherra birti með reglulegu millibili frá mars 2013 til október 2020 um framgang áætlunar um losun takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa og gjaldeyrisviðskiptum í samræmi við þágildandi lög um gjaldeyrismál.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum