Hoppa yfir valmynd
5. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi á 50. afmælisári Landsvirkjunar

Ræða Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi á 50. afmælisári Landsvirkjunar 5. maí 2015.

Landsvirkjun er merkilegt fyrirtæki sem nú hefur fylgt þjóðinni í hálfa öld. Það er því ríkt tilefni til að standa jafn myndarlega að ársfundi félagsins og hér er gert.

Einu sinni fannst mér hálf öld vera allt að því eilífð, en nú þegar maður sjálfur nálgast þennan aldur sér maður að þetta fyrirtæki er enn ungt þótt það hafi löngu slitið barnsskónum - og það hefur áorkað miklu í þágu þjóðarinnar. Við sjáum á afkomu fyrirtækisins, sem í fyrra var sú besta frá upphafi, að það er mikill og vaxandi kraftur í Landsvirkjun.

xxx

Landsvirkjun hefur í gegnum tíðina leitast við að vera opið og aðgengilegt fyrirtæki. Það er ekki nýtt fyrirbrigði, fundið upp af almannatengslaráðgjöfum, heldur hefur þetta verið samofið starfseminni svo áratugum skiptir.

Þannig má minnast þess að á 20 ára afmælinu, árið 1985, voru landsmenn boðnir velkomnir í aflstöðvar víðsvegar um landið til að kynna sér starfsemina.

Listsýningar eru nokkuð algengar í aflstöðvum Landsvirkjunar og gestastofur hafa verið starfræktar.  

Ég efast ekki um að hér í salnum og meðal áhorfenda eru margir sem þekkja vel hve myndarlega og glæsilega er tekið á móti fólki sem sýnir áhuga á að kynnast starfseminni og heimsækja starfsstöðvar Landsvirkjunar. Af því gætu önnur fyrirtæki í landinu dregið lærdóm. 

Þetta opna aðgengi er lífsnauðsynlegt fyrir fyrirtæki sem vill halda áfram að vaxa, dafna og þróast í sátt og samlyndi við þjóðina.

xxx

Við stöndum sífellt frammi fyrir áskorunum um hvernig megi best ná jafnvægi milli þeirra hagsmuna sem við höfum af nýtingu annars vegar og náttúruvernd hins vegar. Þegar þjóð á auðlindir á borð við vatns- eða jarðvarmaorku, er tiltölulega auðvelt með nútímaþekkingu að skapa úr þeim auðlindum mikil verðmæti.

En jafnvel þótt varlega sé farið og gengið um náttúruna af virðingu verður slíkt seint gert án þess að nokkru verði raskað. Á Íslandi hefur okkur auðnast að feta þessa slóð þannig að við höfum viðhaldið sterkri ímynd Íslands sem náttúrugersemi samhliða aukinni orkuframleiðslu.

Í tengslum við langstærstu og líklega umdeildustu framkvæmd Landsvirkjunar til þessa, Kárahnjúkavirkjun, var töluvert rætt um möguleg áhrif af virkjunarframkvæmdunum á komu ferðamanna til landsins. Að meta slík áhrif er sjálfsagður og mikilvægur þáttur í heildarmati á áhrifum framkvæmda, jafnvel þótt athugun á slíkum þáttum geti aldrei orðið hárnákvæm vísindi. Að lokum varð virkjunin að veruleika. Það er athyglisvert að á þessu ári er því spáð að til landsins komi rétt um fjórum sinnum fleiri ferðamenn en heimsóttu Ísland árið 2003.

xxx

Það eru sterk tengsl milli lífskjarasóknar íslensku þjóðarinnar og uppbyggingar Landsvirkjunar. Orkuvinnsla hefur verið forsenda aukinnar orkufrekrar atvinnustarfsemi sem hefur aukið útflutningstekjur landsins og styrkt stoðir efnahagslífsins. Um leið hefur flutningskerfi raforku eflst og orkuöryggi í landinu vaxið.

Aðgangur að öruggri umhverfisvænni orku á sanngjörnu verði eru forréttindi sem aðrar þjóðir, sem ekki búa jafn vel hvað þetta snertir, myndu gefa mikið til að fá aðgang að.

Slíkar hugmyndir hafa verið viðraðar, um orkuútflutning, og það er okkar að vega og meta þá kosti sem við eigum.

Það væri ábyrgðarhlutur að kanna ekki af alvöru kosti beinnar orkusölu úr landi. Það er þó að mörgu að hyggja, áhrifum á innanlandsmarkað, hverju væri fórnað með slíku á móti mögulegum ávinningi.  

En hvort sem rætt er um orkusölu til útlanda eða nýtingu hérlendis er brýnt að til grundvallar sé lagt að verðmætin sem skapist nýtist næstu kynslóðum til jafns við þær sem nú byggja landið.

xxx

Sterkur efnahagur félagsins á þessu 50 ára afmælisári er sérstakt fagnaðarefni. Hann er til vitnis um þá stjórnfestu, ábyrgð og framsýni sem sýnd hefur verið við stjórn og uppbyggingu fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur í gegnum tíðina borið nokkuð þungar skuldir á móti miklum framkvæmdum og eignauppbyggingu.

En stefnan um markvissa uppbyggingu hefur skilað miklu. Hún var í upphafi grundvöllur að fjölbreyttari efnahagsstarfsemi í hagkerfinu. Nú skapa viðskiptavinir Landsvirkjunar þjóðarbúinu mikilvægar gjaldeyristekjur og í kringum orkuiðnað á Íslandi hefur myndast mikil og verðmæt þekking. Sú þekking er orðin sjálfstæð útflutningsvara.

Við stöndum því í vissum skilningi á tímamótum í fleiri en einum skilningi. Á hálfrar aldar afmæli Landsvirkjunar eru horfur til þess að samhliða ört batnandi skuldastöðu geti arðgreiðslur í náinni framtíð verið 10-20 milljarðar á ári. Með því fengi þjóðin verulegan beinan arð af orkuauðlindinni, til viðbótar þeim óbeina arði sem við höfum notið.

Öllu skiptir að okkur takist að nýta þessar jákvæðu horfur okkur til frekari framdráttar og framfara. Til þess þarf að horfa til langrar framtíðar, líkt og gert var við stofnun Landsvirkjunar.

Ég tel tímabært að við Íslendingar stofnum sérstakan orkuauðlindasjóð, fullveldissjóð okkar Íslendinga sem í myndi renna allur beinn arður af nýtingu orkuauðlindanna.

Með því að leggja inn í sérstakan sjóð arðgreiðslur Landsvirkjunar og annarra orkufyrirtækja ríkisins getum við hafið uppbyggingu á varasjóði okkar Íslendinga, sem um leið væri hugsaður sem stöðugleikasjóður til að jafna út sveiflur í efnahagslífinu.

Að byggja upp slíkan sjóð er þolinmæðisverk og mikilvægt að hugsað sé til langrar framtíðar. Nú er að mínu mati rétti tíminn til að taka slíka ákvörðun.

Til að byrja með kæmi til greina að orkuauðlindasjóðurinn væri gegnumstreymissjóður, nýttur til að greiða niður skuldir ríkisins og styðja við fjármögnun mikilvægra innviða á borð við framkvæmdir Landspítalans eða uppbyggingu í menntakerfinu. Afmarka þyrfti slík verkefni með skýrum hætti.

Meginhugsunin með slíkum sjóði væri þó, eins og áður segir, að byggja upp myndarlegan höfuðstól, varasjóð okkar, og styrkja þannig efnahagslega stöðu landsins enn frekar.

Í verkefni sem þessu næst einungis árangur ef hugsað er til langs tíma. En sé það gert, getur sjóðurinn verið mikilvægt hagstjórnartæki. Tryggt væri að við legðum til hliðar í uppsveiflu - og sjóðurinn væri til staðar til að blása lífi í hagkerfið í niðursveiflu.

Að jafnaði væri einungis hluti ávöxtunar til ráðstöfunar í þjóðhagslega aðrðbær verkefni, fjárfestingar í innviðum, rannsóknum, þróun og menntun. Síðast en ekki síst gæti innflæði í sjóð sem fjárfesti erlendis stutt við gengi krónunnar og dregið úr yfirskoti þess.

Það þarf vart að nefna það að traust samstaða um tilgang og tilvist sjóðasins er ein helsta forsenda þess að hann verði stofnaður. Ég mun leita eftir samstöðu um að þetta verði að veruleika.

xxx

Áform Landsvirkjunar um orkunýtingu eru skynsamleg og til þess fallin að skapa sátt. Þar sem Landsvirkjun stendur í framkvæmdum í dag er ýtrustu umhverfissjónarmiða gætt. Það má glöggt sjá á framkvæmdunum við Þeistareyki sem ég heimsótti í fyrrasumar. Við viljum njóta kosta landsins og um leið fara vel með það.

Við Íslendingar verðum að halda áfram uppbyggingu á öllum sviðum, bæði til að mæta þörfum stækkandi þjóðar með hækkandi meðalaldur og til að vera samkeppnisfær við önnur lönd.

Við eigum að gefa unga fólkinu okkar loforð um að halda áfram að bæta lífsgæðin hér á landi.

Við eigum að tryggja það að komandi kynslóðir geti búið við efnahagslegan stöðugleika í landi þar sem virðing er borin fyrir þeim verðmætum sem fólgin eru í náttúrunni og metnaður er lagður í skynsamlega orkunýtingu öllum til hagsbóta. Þar mun Landsvirkjun gegna lykilhlutverki, líkt og hingað til.

Ég óska núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Landsvirkjunar, stjórn og stjórnendum til hamingju með afmælið, með glæsilegan ársfund, og þakka ykkur öllum fyrir vel unnin störf í þágu íslensku þjóðarinnar í fimmtíu ár.

Megi Landsvirkjun og öllu hennar fólki farnast vel um ókomna tíð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum