Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræða fjármála- og efnahagsráðherra við veitingu nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 

Nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Ræða Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra, 23. janúar á Grand hótel.

Góðir gestir.

Ég vil byrja á því að þakka forsvarsmönnum ríkisstofnana og sveitarfélaga og starfsfólki þess fyrir að taka þátt og tilnefna hátt í 50 verkefni til nýsköpunarverðlaunana í ár. Einnig vil ég þakka þeim sem staðið hafa að undirbúningi verðlaunanna og aðalfyrirlesaranum, Nikolaj Lubanski fyrir að hafa gefið sér tíma til að koma hingað til landsins og fræða okkur frekar um þessi mál.

Verðlaunin verða nú veitt í fjórða sinn og hafa um 190 verkefni verið tilnefnd frá því þau voru fyrst veitt. Þessi fjöldi tilnefninga gefur til kynna hversu öflugt starf hefur verið unnið hjá mörgum stofnunum og sveitarfélögum síðastliðin ár.  Jafnframt segir þetta okkur að þörfin fyrir nýjungar og umbætur í opinberri þjónustu er stöðugt til staðar.

Nýsköpun í opinberum rekstri hefur líklega aldrei verið mikilvægari en nú.  Öldrun þjóðarinnar kallar á bætta framleiðni og breyttar áherslur, umhverfismálin kalla á aukna þekkingu og meiri sveigjanleika og menntun skiptir sífellt meira máli. Tímarnir eru breyttir og úr grasi er að vaxa kynslóð sem nýtir upplýsinga- og samskiptatækni með nýjum hætti. Þessu kalli verða opinberir aðilar að svara með nýrri nálgun og nýjum aðferðum.

Það er ljóst að notkun stafrænnar tækni mun halda áfram að gjörbylta samfélaginu og hið opinbera er alls ekki ónæmt fyrir þeirri þróun. Það er á ábyrgð opinberra aðila að nýta sér þá kosti og möguleika sem tæknin býður upp á.

Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu samstarfið hefur verið gott og samvinnan náin meðal þeirra aðila sem standa að þessum verðlaunum.  Á síðastliðnum fjórum árum hafa þeir unnið hörðum höndum að því að draga athygli að nýsköpun og þróunarverkefnum í starfsemi hins opinbera.  Þetta hefur skilað sér í því að nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu er orðin mun sýnilegri bæði hérlendis og erlendis.  Stundum er þó svigrúm til nýsköpunar er ekki til staðar og það er ekki óþekkt að menn hafi áhyggjur af því að mistakast og sóa fjármunum.  Þessi staða er ekki auðveld, okkur ber að fara vel með opinbera fjármuni en að sama skapi munum við ekki bæta þjónustuna eða ná fram betri nýtingu fjármuna nema að þróun og nýjungar komi þar við sögu.

Árið 2013 voru sett fram markmið um eflingu nýsköpunar í opinberum rekstri og var m.a. gerður samningur við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála til að vinna að þessum markmiðum.  Áhersla var lögð á að bæta nýtingu og meðferð almannafjár með því að styðja við og stuðla að nýsköpun í opinberum rekstri, auka getu stofnana til að efla þjónustu við almenning og stuðla að auknu samstarfi á sviði nýsköpunar á milli ríkisstofnana og aðila á einkamarkaði svo eitthvað sé nefnt.

Þessi markmið eru í anda þeirra áherslna sem  fjármála- og efnahagsráðuneytið, miðstöð nýsköpunar í ríkisrekstri, hefur sett fram í fjárlögum. Þar höfum við sagt að styðja þurfi við samstarf ríkisstofnana og einkaaðila á sviði ný­sköpunar og þróunar opinberrar þjónustu.  Jafnframt viljum við að opinber þjónustu verði öflug og leiði til nýsköpunar svo að hún geti staðið standi undir væntingum og þörfum íbúa samfélagsins. Liður í því að færast nær þessum markmiðum er að tryggja áframhaldandi samstarf við alla aðila, þar á meðal Stofnun stjórnsýslufræða, í framtíðinni.

Þó að staða ríkissjóðs fari batnandi og að miklum árangri hafi verið náð með því að ná fram heildarjöfnuði í rekstri ríkisins þá megum við ekki gleyma okkur og hugsa sem svo það sé ekkert sem kalli á frekari þróun í þessum efnum. Þvert á móti tel ég fýsilegt að leggja áherslu á að leita nýrra lausna í ríkisrekstri og leggja þar áherslu á nýsköpun til að sporna við auknum og óþarfa útgjöldum.

Það er einnig mikilvægt að aðgerðir ríkisvaldsins miði að því að bæta umhverfi atvinnulífsins. Þannig sé áherslan á að auka samkeppnishæfni þess, draga úr óþarfa kostnaði, ýta undir frekari framleiðni og skapa verðmæt störf á hinum almenna markaði. Markmið nýsköpunar í ríkisrekstrinum er einmitt meðal annars að draga úr kostnaði atvinnulífsins með markvissari notkun upplýsingatækninnar.  Í því augnamiði stefnum við að því að halda áfram samstarfi við einkaaðila til að stuðla að framþróun og nýsköpun sem gagnist bæði atvinnulífinu og notendum opinberrar þjónustu.

Góðir gestir. Þegar litið er yfir allar þær tilnefningar sem borist hafa til nýsköpunarverðlaunanna síðastliðin fjögur ár er ljóst að það er margt spennandi að gerast hjá hinu opinbera.  Það sem einkennir tilnefningarnar í ár, fyrir utan fjölbreytileikann, eru mörg verkefni sem ætlað er að bæta stöðu barna og ungmenna. 

Það er ánægjulegt að sjá metnaðinn sem lagður er í að þróa verkefni í þeirra þágu, en tilnefnd eru verkefni sem leggja áherslu á betri menntun og aukna lestrarkunnáttu, nýjar kennsluaðferðir, heilsusamlegri mat handa börnunum okkar, fjölbreyttari menningu og markvissari aðferðir í velferðarmálum barna.

Hér að lokum vil ég þakka enn aftur öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni.  Þessar 50 tilnefningar eru langt í frá að vera tæmandi listi yfir alla þá nýsköpun sem er að eiga sér stað innan hins opinbera en þær eru gott sýnishorn af því kröftuga og skapandi starfi sem unnið er undir þessum merkjum nýsköpunar. Ég óska öllum hér góðs gengis og ég vona að þið njótið dagsins og farið heim uppfull af fróðleik og hvatningu til frekari afreka.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum