Hoppa yfir valmynd
20. maí 2014 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ávarp fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi Landsvirkjunar

Ávarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á ársfundi Landsvirkjunar 20. maí 2014:

Það eru forréttindi okkar Íslendinga að eiga og reka fyrirtæki eins og Landsvirkjun, sem nýtir gæði náttúrunnar  á umhverfisvænan hátt í þágu okkar allra. Á næsta ári fögnum við hálfrar aldar afmæli Landsvirkjunar sem hefur í gegnum áratugina vaxið og dafnað með þjóðinni um leið og ýmis viðhorf og gildi hafa breyst. 

Áhersla Landsvirkjunar nú, á að starfa í sátt við umhverfi og samfélag er til fyrirmyndar.  Viðhorf í þeim efnum hafa tekið miklum breytingum frá stofnun fyrirtækisins.  Framkvæmdir frá fyrri tíð virðast stundum í l´josi dagsins, í ljósi nútímans, hafa verið unnar af miklu kappi en ef til vill minni forsjá þegar kom að því að vernda náttúruna og það sem í henni hrærðist.
Umhverfismat var ekki í lög fest og fáir höfðu hugsað út í slíkt þegar Efra-Sogið var stíflað árið 1959 og Steingrímsstöð byggð, með þeim afleiðingum að árfarvegurinn þurrkaðist upp og hrygningasvæðin eyðilögðust fyrir einstakan stofn stórurriða, svonefndan ísaldarurriða. Ég nefni í fyrsta lagi vegna þess að við vorum að fjalla um þetta í þinginu í síðustu viku, en einnig til marks um breytt viðhorf og hagsmunamat, því nú á tímum myndi engum detta í hug að fara fram með slíkum hætti.  Enda hefur Landsvirkjun í millitíðinni gripið til ráðstafana og tryggt lágmarksrennsli í Efra-Sogi til að styðja við uppbyggingu stofnsins að nýju. 
Það var í þeim sama anda sem Alþingi samþykkti ályktun í síðustu viku um endurheimt ísaldarurriðans.
Samkvæmt tillögunni er ríkisstjórninni falið að tryggja gerð fiskvegar úr Þingvallavatni í Efra-Sog í samræmi við stefnumörkun þjóðgarðs á Þingvöllum 2004–2024. Samhliða því verði ráðist í endurbætur á fornum hrygningarstöðvum ísaldarurriðans í efri hluta árinnar, og fyrir mynni hennar, til að stuðla að farsælli endurheimt stofnsins.
Eins og áður segir hefur Landsvirkjun nú þegar brugðist jákvætt við kröfum um aðgerðir til að vernda og treysta tilvist urriðans með því að veita vatni um gamla árfarveginn og er vatnsmagnið nægt til að standa undir verulegri seiðaframleiðslu.
Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum sem ég gæti nefnt hér til vitnis um framgang þeirrar stefnu sem Landsvirkjun leggur nú til grundvallar starfsemi sinni og framkvæmdum - að starfa í sátt við umhverfi og samfélag.
Ég veit að hér á eftir verður sérstaklega rætt um fjárhagslega afkomu og stöðu fyrirtækisins. Landsvirkjun hefur þurft að takast á við miklar áskoranir í erfiðu árferði eins og flest íslensk fyrirtæki.  Við slíkar aðstæður reynir á þann mikla mannauð sem félagið býr yfir.  Þeir sem hafa notað tækifærið nú þegar og eru kannski þrátt fyrir aðvörunarorð fundarstjóra komnir í símana að skoða ársskýrslu Landsvirkjunar,  sjá að leiðarljósið er ráðdeild og ábyrgð í rekstri og að leitast er við að draga úr áhættu með því að greiða niður skuldir. Árið í fyrra var gott rekstrarár fyrir Landsvirkjun, þótt heildarafkoman sé með tapi vegna áhrifa lækkandi álverðs.
Það minnir okkur á að það er mikilvægt til framtíðar og eftirsóknarvert að þjónusta enn fjölbreyttari starfsemi og dreifa með því áhættunni í rekstrinum.  Fagnaðarefni er að fjárfestar í ýmis konar orkufrekum iðnaði hafa lýst áhuga á að hefja starfsemi hér á landi. Og nú er svo komið að hagspár eru beinlínis farnar að gera ráð fyrir því að þær áætlanir raungerist á næstu árum með margvíslegum jákvæðum áhrifum á hagkerfið í heild sinni.
Við eigum mikil sóknarfæri í orkunni. Aukin meðvitund um uppruna orkunnar og endurnýjanlega orkugjafa, sem og aukin eftirspurn í löndunum í kringum okkur eru þættir sem hafa mikla þýðingu. Við njótum þess að vera með áreiðanlegt framboð á orku og hagstætt verð í langtímasamningum. Það gefur okkur ákveðið forskot en á sama tíma er brýnt að við gerum okkur grein fyrir því að verðmæti afurðarinnar er mikið og verðleggjum hana með langtímahagsmuni okkar í huga og í samræmi við eftirspurn. 
Sæstrengur hefur verið talsvert áberandi í umræðunni hér á landi undanfarin misseri, þó sú umræða sé reyndar ekki alveg ný af nálinni. Það er þó varla fyrr en á síðustu árum sem flutningur orku um langa vegalengd á hafsbotni hefur orðið tæknilega raunhæfur eða efnahagslega raunhæfur, ekki síður. Áhugi erlendra fjárfesta og erlendra ríkja á því að kaupa héðan orku hefur enn á ný opnað augu okkar fyrir því hversu mikil verðmæti felast í vatnsföllum og jarðvarma hér á landi. Mörg nágrannaríkja okkar þurfa að búa við sveiflur í verði á jarðefnaeldsneyti og orkuskortur er að verða raunverulegt vandamál víða í Evrópu.
Athugun á tækifærum til sölu raforku um sæstreng hefur sýnt að slíkt verkefni gæti orðið verulega ábatasamt fyrir þjóðarbúið.  En þetta mál er ekki bara einfalt reikningsdæmi.  Á því eru margar hliðar sem ber að skoða ofan í kjölinn: - Hver verða áhrifin á möguleika okkar til áframhaldandi uppbyggingar í orkufrekum iðnaði á Íslandi til skamms og langs tíma? - Hvaðan ætti orkan að koma og mun skapast fullnægjandi sátt, nauðsynleg sátt um nýtingarkostina?  - Hver verða áhrifin á orkuverðið, á orkumarkaðinn á Íslandi? - Hvaða fjárfestingar eru nauðsynlegar í innviðum innanlands vegna hugmyndarinnar og hvernig á að haga eignarhaldi og rekstri á sæstrengnum sjálfum ef til kemur? Hverjar eru horfurnar á orkumörkuðum þar sem strengurinn myndi taka land?
Nú þegar hefur verið unnið að úttekt á framangreindum álitamálum og þótt enn sé ekki tímabært að taka af skarið um hugmyndina, eigum við ekki að draga það of lengi.
Sæstrengur gæti verið liður í frekari uppbyggingu landsins og mikilvægur framtíðarviðskiptavinur Landsvirkjunar.  
Að því sögðu hljótum við alltaf að vera sammála um að það er heildarmat á áhrifum hugmyndarinnar sem ætti að ráða niðurstöðunni og sala orku um sæstreng ætti að koma til skoðunar á þeirri forsendu um fram allt að hún bæti lífskjör þjóðarinnar.
Málið er stórt og allir vita að ekki síst við þær aðstæður sem við búum við í dag er það mikilvægt og ég tel rétt að hafa þennan kost með á teikniborðinu þegar við drögum upp þær mismunandi myndir sem gætu orðið grundvöllur að framtíðarsýn Íslands næstu tvo áratugina.
Ég minntist hér áðan á góðan árangur stjórnenda Landsvirkjunar og hið ábyrga markmið þeirra um að bæta skuldastöðu fyrirtækisins. Landsvirkjun býr að því að eiga ríkissjóð sem traustan bakhjarl. Það er samt sem áður svo að það er mikilvægt að Landsvirkjun standi til boða alþjóðlega samkeppnishæf kjör án ríkisábyrgðar - og að lokum hljótum við að stefna að því að afnema ríkisábyrgðina. 
Hugsanlegt er að liður í að hraða því ferli væri að fá meðeigendur að félaginu. Í því sambandi mætti hugsa sér að Landsvirkjun gæti verið ákjósanleg eign fyrir lífeyrissjóði til lengri tíma í dreifðu eignasafni.
Elsta aflstöðin í safni Landsvirkjunar var gangsett á fjórða áratugnum en sú nýjasta í mars á þessu ári. Vafalaust var ekki hlaupið að því að koma Ljósafossvirkjun á fót á sínum tíma, en aðstæður voru heldur ekki auðveldar þegar framkvæmdir hófust fyrir alvöru við Búðarhálsvirkjun árið 2010. 
Það þarf enginn að fara í neinar grafgötur með það hversu miklu það skipti fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf að fara í svo stóra framkvæmd, þegar fjárfestingarstigið var við frostmark. Þau 900 ársverk sem féllu til við byggingu virkjunarinnar voru mikilvæg innspýting fyrir atvinnulífið. Þar var haldið vel á spöðunum, í framkvæmdalegu og efnahagslegu tilliti, þar sem áætlanir stóðust og markmið um sátt við umhverfi og samfélag náðust. Sú sátt endurspeglast í hönnun mannvirkjanna, sem falla einstaklega vel inn í landslagið, endurspeglast einnig í viðleitni til að raska umhverfi sem minnst og mótvægisaðgerðum til að bæta fyrir gróðurland sem fer undir vatn.
Við Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðarráðherra, fengum það ánægjulega hlutverk að ræsa vélar stöðvarinnar og fundum glöggt fyrir kraftinum í vatninu, sem er ekki einungis verðmætt í sjálfu sér, heldur gerir okkur kleift að skapa enn meiri verðmæti og breikka undirstöður atvinnulífsins.
Þannig sé ég hlutverk Landsvirkjunar, sem kröftugrar og mikilvægrar stoðar í verðmætasköpun landsins og grundvöll að enn frekari efnahagslegum styrk og bættum lífskjörum þjóðarinnar um ókomin ár.
Það er rétt að minnast í lokin sérstaklega á glæsilega ársskýrslu Landsvirkjunar, sem í þetta sinn kemur einungis út rafrænt og felur í sér margar skemmtilegar nýjungar sem gera umfjöllun um starf fyrirtækisins bæði upplýsandi og lifandi.  Það er mikilvægt ekki síst fyrir fyrirtæki eins og Landsvirkjun að vera opið og aðgengilegt og tel ég að með þessu sé farin góð leið til að auðvelda fólki aðgang að greinargóðum upplýsingum um starfsemina.
Að lokum þakka ég stjórnendum og starfsfólki Landsvirkjunar fyrir vel unnið starf og óska þeim velfarnaðar í öllum sínum verkefnum á komandi árum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum