Hoppa yfir valmynd
28. október 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samráð Seðlabanka Íslands við fjármála- og efnahagsráðherra um undanþágur til slitabúa viðskiptabankanna þriggja

Losun fjármagnshafta

Fyrirliggjandi drög að nauðasamningum slitabúanna þriggja uppfylla kröfur laga um gjaldeyrismál um að efndir nauðasamninganna ásamt fyrirhuguðum mótvægisráðstöfunum leiði hvorki til óstöðugleika í gengis- og peningamálum né raski fjármálastöðugleika, að mati Seðlabanka Íslands.  Þetta kemur fram í greinargerð Seðlabanka vegna uppgjörs fallinna fjármálafyrirtækja á grundvelli stöðugleikaskilyrða.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur móttekið bréf frá Seðlabanka Íslands dags. 26. október 2015, þar sem óskað er eftir samráði við ráðherra vegna undanþága til slitabúa viðskiptabankanna þriggja, Landsbanka Íslands, Kaupþings og Glitnis,  frá takmörkunum laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Varða undanþágur þessar gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar í tengslum við nauðasamninga og endanlegt slit búanna.

Samráð skal haft við ráðherra varði undanþága fjármálafyrirtæki sem sætir slitameðferð og felur í sér heimild til gjaldeyrisviðskipta og fjármagnshreyfinga á milli landa fyrir hærri fjárhæð en sem nemur 25 milljörðum króna á einu ári eða varði lögaðila með efnahagsreikning yfir 400 milljörðum króna. Geti slík undanþága haft umtalsverð áhrif á skuldastöðu þjóðarbúsins og varði eignarhald viðskiptabanka skal hún aðeins veitt að höfðu samráði við fjármála- og efnahagsráðherra og að undangenginni kynningu ráðherra á efnahagslegum áhrifum hennar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Fjármála- og efnahagsráðherra og seðlabankastjóri kynntu erindi Seðlabankans og efnahagsleg áhrif þess að veita undanþágurnar fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Ríkisstjórn Íslands og ráðherranefnd um efnahagsmál hafa einnig fjallað um málið.

Fulltrúar framkvæmdahóps um afnám hafta áttu í kjölfar kynningar ráðherra fyrir efnahags- og viðskiptanefnd fundi með þingflokkum þar sem kynnt var ítarleg greining á áhrifum með tilliti til greiðslujöfnuðar og stöðu þjóðarbúsins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum