Hoppa yfir valmynd
24. júlí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Álagning opinberra gjalda á einstaklinga 2015

Ríkisskattstjóri hefur nú lokið álagningu opinberra gjalda á einstaklinga. Álagningin 2015 tekur mið af tekjum einstaklinga árið 2014 og eignastöðu þeirra 31. desember 2014.

Helstu niðurstöður álagningarinnar eru eftirfarandi:

  • Framteljendum fjölgar um 1,2% á milli ára og eru 271.806. Alls fá 169.240 einstaklingar álagðan almennan tekjuskatt og 260.708 fá álagt útsvar.
  • Tekjuskatts- og útsvarsstofn landsmanna árið 2015 vegna tekna árið 2014 nam 1.059 ma.kr. og jókst um 7,2% frá fyrra ári.
  • Samanlögð álagning almenns tekjuskatts og útsvars nemur 276,5 ma.kr. og hækkar um 6,1% milli ára. Álagður tekjuskattur nemur 42,5% af þeirri fjárhæð og útsvar 57,5%. Hlutdeild tekjuskattsins minnkaði um 0,7 prósentustig milli ára og hlutdeild útsvars jókst tilsvarandi.
  • Almennur tekjuskattur nemur 117,5 ma.kr. og er lagður á rúmlega 169 þúsund framteljendur. Gjaldendum fjölgar um 3,3% sem er svipuð aukning og var á síðasta ári. Álagningin jókst um 4,3% á milli ára sem er nokkru minna en aukning á álögðu útsvari til sveitarfélaga. Sú þróun á sér tvær meginskýringar. Annars vegar varð tilfærsla á tekjuskatti einstaklinga upp á 0,04 prósentustig yfir í hámarksútsvar sveitarfélaga í samræmi við viðaukasamkomulag milli ríkis og sveitarfélaga vegna tilfærslu á málefnum fatlaðs fólks til sveitarfélaga. Hins vegar er tekjuskattslækkunin sem tók gildi í ársbyrjun 2014, þegar miðþrep tekjuskattsins var lækkað um 0,5 prósentustig og samhliða því voru neðri  tekjuviðmiðunarmörkin hækkuð um 20%, eða í 290 þúsund krónur á mánuði.
  • Álagt útsvar til sveitarfélaga nemur 159 ma.kr. sem er 7,5% aukning á milli ára. Útsvar reiknast af öllum skattstofninum en ónýttur persónuafsláttur nýtist upp í greiðslu útsvarsins. Ríkissjóður greiðir þannig að hluta eða öllu leyti útsvar þeirra sem hafa tekjur undir skattleysismörkum í formi ónýtts persónuafsláttar. Sú fjárhæð nemur 10,9 ma.kr., eða sem nemur tæplega 7% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga.
  • Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 16,8 ma.kr. og hækkar um 16,3% milli ára. Gjaldendum fjármagnstekjuskatts fækkar hins vegar um 13,8%, úr um 45 þús. manns í tæplega 39 þúsund. Gjaldendum hefur fækkað mikið síðan frítekjumarki á vaxtatekjur var komið á 2011, en það hækkaði í 125 þús.kr. á ári í fyrra sem líklega skýrir fækkun gjaldenda nú. Við álagningu 2010 voru gjaldendur skattsins tæplega 183 þúsund.
  • Rétt er að vekja athygli á því að breyting fjármagnstekna milli ára er mjög mismunandi eftir tegundum fjármagnstekna. Tekjur einstaklinga af arði nema 29,5 ma.kr. og aukast um 53,6% frá fyrra ári og er arður stærsti einstaki liður fjármagnstekna að þessu sinni. Hagnaður af sölu hlutabréfa nemur 24,6 ma.kr. og hækkar um 40,4% milli ára meðan framteljendum sem telja fram söluhagnað vegna hlutabréfa fækkar um 13%. Vaxtatekjur nema 25,8 ma.kr. og dragast saman um 16,9% frá árinu áður. Leigutekjur nema 8,9 ma.kr. og dragast saman um 1,1% á milli ára. Sérstaka athygli vekur að fjöldi þeirra sem hefur leigutekjur dregst saman um 10,1% eða tæplega 800 manns á milli ára.
  • Framtaldar eignir heimilanna námu 4.212,9 ma.kr. í lok síðasta árs og jukust um 5,6% frá fyrra ári. Fasteignir töldust 3.028,7 ma.kr. að verðmæti, eða um 72% af eignum, og jókst verðmæti þeirra um 8,0% á milli ára. Íbúðareigendum fjölgaði um 545 á milli ára eða um 0,6%.
  • Framtaldar skuldir heimilanna námu 1.767,8 ma.kr. í árslok 2014 og drógust saman um 1,1% milli ára. Framtaldar skuldir vegna íbúðarkaupa námu 1.181,5 ma.kr.. sem er 0,6% aukning á milli ára. Eigið fé heimila í fasteignum hefur aukist ár frá ári í fjögur ár og samsvarar nú 61% af verðmæti þeirra samanborið við 58% árið áður. Tæplega 26 þúsund af um 95 þúsund fjölskyldum sem eiga íbúðarhúsnæði telja ekki fram neinar skuldir vegna þess.
  • Nettóeign heimila, skilgreind sem heildareignir að frádregnum heildarskuldum, jókst um 11% á árinu 2014 og nam samtals 2.445,1 ma.kr.
  • Útvarpsgjald nemur 3,4 ma.kr. Það nemur 17.800 kr. á hvern framteljanda á aldrinum 16-69 ára sem hefur tekjur yfir skattleysismörkum. Greiðendum útvarpsgjalds fjölgar um rúmlega 3.800 milli ára. Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra nemur 1,9 ma.kr. og eru greiðendur þess hinir sömu og greiða útvarpsgjald.
  • Greiðslur barnabóta aukast á milli ára og nema 10 ma.kr. sem er 5,1% aukning frá fyrra ári. Rúmlega 48 þúsund fjölskyldur fá barnabætur á þessu ári sem er 9,5% fækkun frá árinu 2014. Fjárhæð meðalbóta hækkar hins vegar umtalsvert, eða um rúmlega 16% á milli ára en allar fjárhæðir barnabótakerfisins voru hækkaðar verulega í upphafi ársins. Í álagningu eru ekki reiknaðar barnabætur á aðila sem eru með áætlaðan tekjuskattstofn. Vegna þess gætu barnabætur átt eftir að aukast um a.m.k. 300 m.kr. Hlutfall áætlaðs tekjuskattsstofns hefur farið lækkandi síðustu ár og nemur nú um 3% af heildartekjuskatts- og útsvarsstofni.
  • Almennar vaxtabætur vegna vaxtagjalda af lánum til kaupa á íbúðarhúsnæði, sem einstaklingar greiddu af á árinu 2014, nema 7 ma.kr. sem er 12,6% lækkun á milli ára. Almennar vaxtabætur fá tæplega 38 þúsund fjölskyldur á árinu 2015  og fækkar þeim um 10% á milli ára.
  • Hinn 31. júlí verða greiddir um 19 ma.kr. úr ríkissjóði til heimila. Þar er um að ræða endurgreiðslu á ofgreiddum sköttum, barnabætur og vaxtabætur. Inneign framteljenda að lokinni álagningu er alls 22,4 ma.kr. en 3,5 ma.kr. af henni verður ráðstafað upp í kröfur vegna vangoldinna gjalda. Útborgunin er sundurliðuð í meðfylgjandi töflu.
Tegund greiðslu M.kr.
Barnabætur 2.636
Vaxtabætur 5.886
Ofgreidd staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars 9.340
Ofgreidd staðgreiðsla fjármagnstekjuskatts 845
Annað 257
Alls 18.964
  •  Heildarfjárhæðin sem greidd er út hækkar úr 17,7 ma.kr. í 19,0 ma.kr. milli ára. Hækkunin skýrist einkum af ofgreiddri staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars sem leiðrétt er með endurgreiðslu. Þá mun ríkissjóður greiða 2,6 ma.kr. í barnabætur 1. nóvember nk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum