Hoppa yfir valmynd
8. júlí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfirlit yfir þingmál fjármála- og efnahagsráðherra á nýafstöðnu þingi

Á þinginu í vetur lagði fjármála- og efnahagsráðherra fram  20 lagafrumvörp, misjafnlega efnismikil.  Alls samþykkti þingið 17 af þessum frumvörpum en tvö þeirra eru enn í umfjöllun nefndar. Annað af veigamestu frumvörpum ráðherrans, frumvarp til laga um opinber fjármál, bíður annarrar umræðu eftir að hafa verið til ítarlegrar umfjöllunar í nefnd í allan vetur. Þá lagði ráðherrann fram tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016-2019. Áætlunin var lögð fram 1. apríl eins og lög gera ráð fyrir og samþykkt á síðustu starfsdögum þingsins.

Þingmenn lögðu fram 81 fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra, þar af 7 til munnlegs svars. Þetta eru fleiri fyrirspurnir en ráðherrann hefur nokkru sinni fengið en metið var áður 73 á einu þingi. Öllum munnlegu fyrirspurnunum hefur verið svarað og 66 skrifleg svör hafa verið send til þingsins þótt einu svari hafi enn ekki verið dreift til þingmanna. Af átta fyrirspurnum sem þá eru eftir falla fjórar niður vegna andláts fyrirspyrjanda og tvær voru lagðar fram á síðasta starfsdegi þingsins. Tveimur fyrirspurnum sem krefjast umfangsmikillar gagnasöfnunar er enn ekki lokið en þær verða sendar í rafrænni dreifingu um leið og það er hægt. Þá svaraði ráðherrann samtals 70 óundirbúnum fyrirspurnum frá þingmönnum.

Fjármála- og efnahagsráðherra dreifði tveimur skýrslum í þinginu. Önnur var um starfsemi fjármálastöðuleikaráðs árið 2014 en samkvæmt lögum um ráðið skal það gera þinginu grein fyrir starfsemi sinni. Hin var um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Á síðasta degi þingsins fékk ráðherrann beiðni um enn ítarlegri skýrslu um það verkefni og verður hún unnin þegar starfsfólk ráðuneytisins kemur úr sumarleyfum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum