Hoppa yfir valmynd
24. júní 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfirlýsing um starfsskilyrði og kjaramál hjúkrunarfræðinga

Stjórnvöld hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga:

Yfirlýsing

stjórnvalda um starfsskilyrði og kjaramál hjúkrunarfræðinga

Í þessari yfirlýsingu sem gefin er út í tengslum við kjarasamninga ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) er að finna leiðarljós um það hvernig bæta megi kjör hjúkrunarfræðinga til lengri tíma.

  1. Unnið verður að því í samráði við Fíh að bæta launakjör og skapa bætt skilyrði til þess að ríkið greiði samkeppnishæf laun sem endurspegli ábyrgð í starfi, kröfur um menntun og frammistöðu starfsmanna.
  2. Áfram verður unnið að nýju fyrirkomulagi við gerð kjarasamninga, þar sem horfa verður til lengri tíma, þannig að samningaviðræður í framtíðinni verði einfaldari og árangursríkari.
  3. Unnið verður að eftirfarandi kerfisumbótum sem geta leitt til jákvæðrar launaþróunar umfram umsamdar taxtahækkanir í kjarasamningum:


A.             Útfærsla stofnanasamninga og launamála innan stofnana. 

Tilgangur stofnanasamninga er að stuðla að skipan launamála sem fellur að sérkennum og áherslum stofnana og tryggja starfsfólki möguleika á launaþróun á grunni ábyrgðar í starfi, menntunar og frammistöðu. Samið verður um styrkingu á stofnanasamningum í kjarasamningum og verður lögð sérstök áhersla á frammistöðu og menntun við launaákvarðanir.


B.             Samspil launamála og fjárlagagerðar. 

Viðurkennt er að launaþróun hefur verið mismunandi eftir stofnanahópum innan ríkiskerfisins. Unnið verður að því í tengslum við fjárlagagerð að ekki skapist misræmi í launasetningu fyrir sambærileg störf til að tryggja að starfsfólk einstakra stofnana sitji ekki eftir í launaþróun.


C.             Launaþróunartrygging

Ríkið á almennt ekki að vera leiðandi aðili í launaþróun en jafnframt þarf að tryggja að launaskrið á almennum vinnumarkaði valdi ekki misræmi í launaþróun hjá starfsmönnum ríkisins í samanburði við starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Komast verður hjá því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði standi í vegi þess að hægt sé að breyta launum á grunni kerfisbreytinga eða endurmeta launakjör einstakra hópa ríkisstarfsmanna. Unnið verður að innleiðingu launaþróunartryggingar sem felur í sér reglubundinn samanburð launa félagsmanna Fíh við launaþróun almennt og reiknaða aðlögun þar í milli. Þetta verður gert í samráði við önnur samtök á vinnumarkaði.


D.             Samspil framleiðni, vinnuumhverfis, vinnutíma og launaþróunar. 

Aukinn framleiðni er ein forsenda þess að ríkið geti mætt kröfum um bætt kjör. Til að tryggja aukna skilvirkni í opinberri starfsemi verður unnið að umbótum á rekstri heilbrigðisstofnana ríkisins með áherslu á aukinn sveigjanleika í rekstri. Í þessu sambandi þarf m.a. að huga að bættu vinnuumhverfi starfsmanna sem m.a. er ætlað að draga úr fjarvistum vegna veikinda. Kanna þarf kosti þess að endurskoða ákvæði kjarasamninga um vinnutíma og auka sveigjanleika vinnutímaákvæða, t.d. þannig að einstakar stofnanir geti gert tilraunir með breytingar á vinnufyrirkomulagi. Haft verður fullt samráð við hjúkrunarfræðinga og Fíh við ofangreindar breytingar.


E.              Fjármál. 

Veitt verður sérstakt framlag til að vinna að: (1) bættri gerð og framkvæmd stofnanasamninga, (2) þróun aðferða til að launasetning taki mið af frammistöðu og (3) bættu vinnuumhverfi og aðgerðum til að draga úr fjarvistum vegna veikinda. Gerð verður sérstök greining á launaþróun einstakra starfsmannahópa og fjármagni veitt til að leiðrétta það misvægi sem greiningin leiðir í ljós. Þessi greining tekur jafnt til heilbrigðisstofnana ríkisins og annarra stofnana þar sem hjúkrunarfræðingar starfa og ríkið fjármagnar. Verði samið um breytingar á réttindum, vinnutíma og sambærilegum atriðum verður lagt mat á þann ávinning sem ríkið hefur af breytingunum og hann metinn til launa. Ekki verður horft til hækkana vegna þessa við samanburð á þróun launa starfsmanna ríkisins annars vegar og á almennum vinnumarkaði hins vegar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,  forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum